Hækkun á gjaldskrá kemur harðast niður á efnaminni fjölskyldum

Akureyri á fallegum degi   Mynd gn
Akureyri á fallegum degi Mynd gn

„Engar hugmyndir hafa komið fram sem miða að því að hlífa tekjulágum, öldruðum, öryrkjum eða einstæðum foreldrum við skörpum verðhækkunum,“ segir í bókun sem Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar lagði fram á fundi bæjarstjórnar Akureyrar á þriðjudag. Hún ákvað að taka til umræðu á fundinum yfirvofandi gjaldskrárhækkanir í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár, „í þeirri von að hafa áhrif á það hvernig gjaldskráin verður samþykkt að lokum,“ segir hún.

Fram kemur einnig að hugmyndir og tillögur um almenna 10% hækkun á gjaldskrám Akureyrarbæjar fyrir árið 2023 endurspegli ekki hugmyndir um að gæta sérstaklega að hagsmunum barnafjölskyldna og tekjulágra hópa. Þó svo horft sé til þess að grunngjald leikskóla standi í stað, hækki fæðiskostnaður og þar með heildarreikningur foreldra og forráðamanna, 10% hækkun á fæðisgjaldi í grunnskólum og vistun komi harðast niður á efnaminni fjölskyldum. „Að óbreyttu verður ótækt að samþykkja gjaldskrá Akureyrarbæjar fyrir árið 2023.“

Hilda Jana benti á fundi bæjarstjórnar í vikunni á að í aðdraganda kosninga á liðnu vori hefði eitt stærsta og sýnilegasta kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins verið loforð um gjaldfrjálsa leikskóla, L – listinn hefði talaða um að lækka leikskólagjöld í skrefum og Miðflokkurinn talað um nauðsyn þess að leik- og grunnskólabörnum efnaminni foreldra væru tryggðar skólamáltíðir.

Forgangsmál að vinna að auknum jöfnuði

Nefndi Hilda Jana umræður sem verið hafa í hópnum „Matargjafir á Akureyri og nágrenni“ á Facebook þar sem fram kemur að beiðnir um aðstoð streyma inn og sumir foreldrar eigi ekki fyrir nesti í skólann fyrir börn sín, ástandið sé að snarversna. „Ríkisvaldið ber að sjálfsögðu mikla ábyrgð á þessari stöðu, hins vegar geta sveitarfélög ekki látið eins og þetta komi þeim ekki við,“ sagði Hilda Jana. Það ætti að vera forgangsmál bæjarstjórnar Akureyrarbæjar að vinna að auknum jöfnuði, vitað væri að ákveðnir hópar væru í erfiðari stöðu en aðrir og hægt að taka ákvarðanir út frá þeirri vitneskju til að jafna stöðuna.

Öll útfærslan er eftir

Halla Björk Reynisdóttir formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar segir vinnu við fjárhagsáætlun vera í fullum gangi og enn hafi engar tillögur verið gerðar um gjaldskrá.

Öll útfærsla sé eftir en almennt sé gengið út frá því að gjaldskrá fyrir mat í skólum verði þannig að ekki sé rukkað fyrir annað en grunnkostnað og sama megi segja um frístund. Áhugi sé hins vegar fyrir því að útfæra leikskólagjöld með þeim hætti að um raunlækkun verði að ræða. „Útfærsla fræðslu- og frístundaráðs liggur enn ekki fyrir og því ekki tímabært að ræða þetta nánar,“ segir hún.

 


Athugasemdir

Nýjast