Hetjurnar fagna 10 ára afmæli félagsins í dag

Hetjurnar, félag langveikra barna á Norðurlandi, fagnar tíu ára afmæli sínu í dag, 13. október. Félagsmenn ætla að koma saman í sal Glerárkirkju á afmælisdaginn og gera sér glaðan dag. Hetjurnar eru aðildarfélag að Umhyggju, sem eru regnhlífarsamtök yfir foreldrafélög langveikra og fatlaðra barna á Íslandi. Um níutíu fjölskyldur eiga aðild að félaginu í dag.  

Tilgangur félagsins er fjórþættur: Að gæta hagsmuna langveikra barna og aðstandenda þeirra, að miðla upplýsingum um hina ýmsu sjúkdóma, að gefa foreldrum vettvang til að hittast og ræða það sem á þeim brennur varðandi börnin og vandamál þeirra, og síðast en ekki síst að gefa þessum fjölskyldum tækifæri til að hittast og eiga góðar stundir saman. Starfsemi félagsins er með ýmsum hætti. Félagið er með opinn síma, 868 7410, alla virka daga til að veita félagsmönnum ráð og stuðning, stendur fyrir fræðslufundum um ýmis málefni er snerta langveik börn. Félagið greiðir götu félagsmanna á ýmsan hátt, meðal annars með styrk til tómstundastarfa, niðurgreiðslu á leigu orlofshúsa og -íbúða og fleiru. Fastir liðir á dagskrá félagsins ár hvert eru útivistardagur, afmælisfagnaður, jólaball, leikhús- og bíóferðir og ýmsar skemmtiferðir. Rekstur félagsins er fjármagnaður með frjálsum framlögum og stuðningi margra fyrirtækja, félagasamtaka og einstaklinga. Þá hefur félagið gefið út minningarkort sem seld eru í verslunum á Akureyri og rennur ágóðinn óskiptur til félagsins. Velunnarar geta lagt félaginu lið með beinu fjárframlagi inn á reikning 1145-15-770041, kt. 431199-3439.

Nánari upplýsingar um starfsemi félagsins veitir Sveina Páls í síma 868 7410, eða netfanginu hetjurnar@simnet.is Upplýsingar um félagið og starfsemi þess er einnig að finna á heimasíðunni http://www.hetjurnar.is/

Nýjast