Hertar aðgerðir vegna losunar á óflokkuðum rekstrarúrgangi

Eitt af markmiðum í „Svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs 2005-2020" fyrir Eyjafjörð er að minnka urðun á lífrænum úrgangi og auka endurvinnslu. Unnið hefur verið að því að ná þessu markmiði og ágætur árangur hefur náðst á sumum sviðum. Samt sem áður er enn alltof mikið um að fluttur sé til urðunar algjörlega óflokkaður úrgangur, sem auðvelt hefði verið að flokka mun betur, t.d. með að taka frá bylgjupappa, plast, timbur, brotamálma og fleira.  

Á síðasta ári hóf Flokkun Eyjafjörður ehf. átak í flokkun rekstrarúrgangs hjá fyrirtækjum og stofnunum. M.a. var gjald fyrir urðun óflokkaðra farma hækkað nokkuð. Stærstu úrgangshöfum og þjónustuaðilum á Eyjafjarðarsvæðinu voru send bréf  þar sem átakið var kynnt. Nú er ætlunin að taka næsta skref í þessum málum og m.a. framfylgja betur en áður þeim reglum sem settar hafa verið um losun úrgangs á urðunarstaðnum.

Þann 1. janúar 2009 hækkaði gjaldskrá Flokkunar fyrir óflokkaðan rekstrarúrgang talsvert og einnig er betur en áður skilgreint hvað flokkast sem „blandaður úrgangur" og hvað telst vera „óflokkaður úrgangur". Blandaður úrgangur er heimilisúrgangur og samskonar leifar frá rekstraraðilum. Einnig flokkast úrgangur sem ógerlegt er að flokka sem blandaður úrgangur. Óflokkaður úrgangur er sá sem inniheldur eitthvað af endurvinnanlegum úrgangi eða úrgangi sem á að ráðstafa á annan hátt en í urðun.

Eftir 1. febrúar nk. verður eftirlit á urðunarstaðnum hert til muna og farmar með óflokkuðum úrgangi munu verða skráðir sérstaklega. Nokkra vikna aðlögunartími verður gefinn en eftir hann verður innheimt samkvæmt gjaldskrá hæsta gjald fyrir allan óflokkaðan úrgang, sem hægt er að flokka betur. Rekstraraðilum er bent á að leita sér upplýsinga á heimasíðu Flokkunar http://www.flokkun.is/ um gjaldskránna og reglur um losun úrgangs. Einnig er hægt að hafa samband á skrifstofuna á Furuvöllum 1, Akureyri, í síma: 462 4035. Jafnframt er hægt að leita sér upplýsinga um flokkun og fleira hjá þeim fyrirtækjum sem bjóða upp á þjónustu við úrgangssöfnun.     

Nýjast