Hermann Jón vill leiða lista Samfylkingarinnar áfram

Hermann Jón Tómasson bæjarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn Akureyrar stefnir að því að leiða lista flokksins áfram í bæjarstjórnarkosningunum í vor. Hann gefur kost á sér í 1. sætið í prófkjöri flokksins í janúar. Hermann Jón telur eðlilegt að oddviti flokksins verði jafnframt bæjarstjóraefni hans.  

Félagsfundur Samfylkingarinnar á Akureyri samþykkti  í vikunni að haldið verði opið rafrænt prófkjör þann 30. janúar nk. um fimm efstu sætin á lista flokkins næsta vor. Sigrún Stefánsdóttir bæjarfulltrúi, sem skipaði 2. sæti listans í síðustu kosningum, gefur kost á sér í 2. sætið í prófkjörinu. Helena Þ. Karlsdóttir, þriðji bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, sem skipaði 3. sæti listans síðast, hefur ekki tekið ákvörðun um þátttöku í prófkjörinu.

Ýmsir aðrir flokksfélagar eru að velta málum fyrir sér en hafa ekki tekið ákvörðun um að taka slaginn. Má þar nefna Ásgeir Magnússon, sem skipaði 4. sæti listans síðast, Þorlák Axel Jónsson, Loga Má Einarsson, Hall Heimisson og Pétur Maack.Tillaga stjórnar Samfylkingarinnar á Akureyri, um kynjaskiptingu í efstu sætin náði ekki fram að ganga en stuðst verður við reglur flokksins um 40-60% kynjahlutfall í efstu sætunum. Það þýðir að þrír karlar eða þrjár konur gætu skipað þrjú efstu sætin að loknu prófkjöri.  Á fundinum var kosin prófkjörsstjórn til að fullmóta og ganga frá reglum prófkjörsins. Auk þess var kosin uppstillingarnefnd sem ætlað er það hlutverk að stilla upp í sæti 6 - 22 að loknu prófkjöri.

Nýjast