Herferð um umferðaröryggi hefst í dag

Í dag, miðvikudaginn 11. maí, klukkan 10:30 verður hleypt af stokkunum átakinu Áratugur aðgerða (Decade of Action) sem stofnað hefur verið til að frumkvæði Sameinuðu þjóðanna. Hefst átakið í dag í öllum þátttökulöndum þess. Forgöngu um átakið hér á landi hafa innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið sem hafa kallað til samstarfs fjölmarga aðila sem sinna umferðaröryggismálum, þ.m.t. Umferðarstofu, Vegagerðina og ýmis samtök og félög.  

Markmið átaksins er að draga úr banaslysum og alvarlegum slysum í umferðinni á heimsvísu næstu 10 árin og er hvert og eitt aðildarland SÞ hvatt til að setja fram áætlun um aðgerðir í þeim efnum. Byggjast slíkar áætlanir á því sem þegar hefur verið gert í umferðaröryggisaðgerðum og nýjum verkefnum sem einstök ríki vilja leggja áherslu á. Átakinu verður hleypt af stokkunum klukkan 10:30 við Kennslu- og prófamiðstöð ökukennarafélags Íslands og Frumherja á Kirkjusandi. Í lok athafnar mun nemendahópur úr Laugarnesskóla sleppa í loftið 201 blöðru sem táknræna minningu um þá sem létust í umferðarslysum árin 2001 til 2010. Talið er að allt að 30 milljarðar fari í súginn hér á landi vegna umferðaróhappa og slysa á hverju ári. Átakinu „Decade of Action" er ætlað að sporna gegn þessu. Stjórnvöldum um allan heim er ætlað að nota þennan áratug til að efla umferðaröryggi til muna. Styrkja þær stoðir samfélagsins sem þarf til að fækka umferðarslysum umtalsvert en það getur kallað á breytt hugarfar, breyttar forsendur í t.d. vegamálum, breyttar áherslur og forgangsröð. Ef ekkert verður að gert munu líklega 1,9 milljónir manna deyja á árinu 2020 í umferðinni.

Umferðaröryggi er ekki nýtt verkefni á Íslandi. Í áraraðir hafa samgönguyfirvöld, lögreglan sveitarfélög, aðrir opinberir aðilar, félagasamtök og einstaklingar unnið að auknu umferðaröryggi með fjárframlögum, aðgerðum, fræðslu og eftirliti. Með aðgerðinni ,,Áratugur aðgerða" eru allir þessir aðilar kallaðir til nýrrar ábyrgðar og nýrrar hvatningar á þessu sviði. Lögð verður áhersla á að umferðaröryggi sé sett á oddinn á öllum sviðum í samgöngumálum. Undirbúningshópur fulltrúa frá innanríkisráðuneyti, velferðarráðuneyti, rannsóknarnefnd umferðarslysa, Landssambandi lögreglumanna, landlæknisembætti, Umferðarstofu, Vegagerðinni, Félagi ísl. bifreiðaeigenda, Landssamtökum hjólreiðamanna, Bifhjólasamtökunum, Samtökum fjármálafyrirtækja hefur undirbúið herferðina og mögulegt er að fleiri verði fengnir að málinu eftir því sem verkefninu vindur fram.

Nýjast