Sænska myndlistakonan Helen Molin opnar sýninguna Háfleygt í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri á morgun. Helen sýnir 300 mynda seríu sem hún vinnur með blandaðri tækni í grafíkprent og vatnsliti. Hún fjallar um stað sem ekki á sér tíma eða rúm og eru myndirnar fantasíur þar sem fólk og fuglar eru í aðalhlutverki.
Verkin mín eru sögur eða sagnir án orða. Þau innihalda hvorki fortíð né framtíð heldur eru tímalaus í núinu, tímabilið að innan, að utan og á milli. Veröldin þar sem barnslegt ímyndunarafl og þroskuð reynsla fullorðinna mætast og flýgur hátt og hefur vængi. Þar sem hvorki tíminn né orðin eru og þú flýgur hærra og hærra, segir Helen um verk sín.
Sýningin stendur til 5.ágúst.