Heimsóknabann á öllu deildum HSN á Húsavík

Á laugardag sl. voru staðfest tvö Covid smit á sjúkradeild sjúkrahússins á Húsavík en tveir sjúklingar fengu jákvæða niðurstöðu úr sýnatöku. Ásgeir Böðvarsson yfirlæknir á sjúkrasviði HSN á Húsavík sagði í samtali við Vikublaðið á mánudag að gripið hafi verið til aðgerða og unnið væri úr stöðunni. „Viðbrögðin voru þau að sjúklingarnir voru sendir til Akureyrar þar sem Covid-deildin er starfandi á Norðurlandi. Annar sjúklinganna þurfti lyf sem við höfðum ekki; sérstakt covid lyf. Svo höfum við svo sem stefnt að því að safna einstaklingum saman enn sem komið er á þessa tvo staði; Landspítala og SAk,“ sagði Ágeir.

Ásgeir sagði að viðbrögð við ástandinu hafi gengið vel fyrir sig og hvorugur sjúklinganna í lífshættu. „Hvorugur þessara einstaklinga  voru bráðveikir en fundu fyrir talsverðum einkennum,“ útskýrði hann og bætti við að smitrakning hafi staðið yfir um helgina.  „Strax á laugardag hófst heilmikil vinna sem stóð yfir um helgina við að rekja hvort þessi smit næðu til annarra einstaklinga. Það voru tekin sýni á laugardag, sunnudag og á mánudag. Niðurstaðan var að engin staðfest smit hafa bæst við þessi tvö sem við vorum með á deildinni.“

 Stoppa umgang á milli deilda

Í kjölfar smitanna var tekin ákvörðun um að loka alveg fyrir heimsóknir á öllum deildum sjúkrahússins og á dvalarheimilinu Hvammi. „Við stoppuðum jafnframt allan samgang á milli sjúkradeildar, hjúkrunardeildanna og heilsugæslunnar. Flest annað gengur sinn vanagang, annað en það að fólk getur ekki komið í heimsóknir. Við eigum erfitt með að nota sjúkradeildina núna sem innlagnadeild því við verðum að halda henni í biðstöðu á meðan við bíðum eftir niðurstöðum úr síðustu sýnatökunni sem verður að taka á fimmtudag. Ef engin jákvæð sýni koma út úr því þá erum við orðin frí aftur,“ sagði Ásgeir.

Ekkert af starfsfólki spítalans hefur þurft að sæta einangrun eða sóttkví.

„Eins og staðan er í dag þá er engin í beinlínis í sóttkví. Við viljum bara ekki umgang á milli þessara deilda. Þessari deild sem gæti verið smituð. Nú er það orðið þannig að þeir sem eru þríbólusettir eða tvíbólusettir og hafa fengið Covid þeir fara hvort eð er ekki í sóttkví en það gildir annað inn á spítala þar sem fólk er ónæmisveiklað og við verðum halda hlífskildi yfir sjúkradeildinni á meðan við vitum ekki hvort hún er í smitástandi eða ekki,“ sagði Ásgeir að lokum.


Nýjast