Heimskautsbaugurinn færist úr stað

Ferðafólk við Orbis et Globus í Grímsey. Mynd/María Helena Tryggvadóttir.
Ferðafólk við Orbis et Globus í Grímsey. Mynd/María Helena Tryggvadóttir.

Listaverkið Orbis et Globus var sett niður á heimskautsbauginn í Grímsey haustið 2017. Um er að ræða kúlu sem er 3 metrar í þvermál og á að færast um eyjuna í samræmi við skrykkjóttar hreyfingar heimskautsbaugsins þar til hann yfirgefur eyjuna árið 2047 eða því sem
næst.

Fyrir Sólstöðuhátíðina sem haldin var í Grímsey fyrr í sumar var listaverkið því fært á að giska 130 metra til suðurs og á Sólstöðuhátíðinni
á næsta ári verður það fært enn á ný. Listaverkið er kennileiti fyrir heimskautsbauginn sem hefur vakið athygli um víða veröld og talsvert verið um það fjallað á vinsælum netmiðlum og í tímaritsgreinum.

Markmiðið með gerð verksins var að vekja athygli á Grímsey og auka aðdráttarafl eyjarinnar fyrir ferðamenn og má segja að það hafi
sannarlega tekist, segir á vef Akureyrarbæjar. Flestir erlendir ferðamenn, og einnig innlendir, sem til Grímseyjar koma, leggja á það ofurkapp að komast „norður að kúlunni“. Mörg dæmi eru um það í sumar að ferðafólk komi til eyjarinnar gagngert til þess að sjá og snerta listaverkið og komast með þeim hætti sannarlega norður fyrir heimskautsbauginn.

Orbis et Globus er eftir listamanninn Kristinn E. Hrafnsson og arkitektinn Steve Christer hjá Studio Granda. Það var valið til að vera nýtt kennileiti
fyrir heimskautsbauginn eftir samkeppni um slíkt verk sem efnt var til árið 2013.

Nýjast