Heimir: Verður erfitt gegn HK

Eftir leiki kvöldsins í lokaumferð N1-deildar karla í handbolta er ljóst hvaða lið eigast við í undanúrslitum þegar úrslitakeppnin hefst eftir viku. Akureyri og HK mætast annars vegar og FH og Fram hins vegar. Úrslitakeppnin hefst fimmtudaginn eftir viku þann 14. apríl og verður fyrsti leikur Akureyri og HK fyrir norðan. „Mér var alveg sama hvort við myndum mæta Fram eða HK. Þetta eru allt fjögur mjög góð lið og það getur allt gerst. Við höfum heimavöllinn sem kemur til með að hjálpa okkur gríðarlega,” sagði Heimir Örn Árnason fyrirliði Akureyrar við Vikudag í kvöld, þegar ljóst var hvernig undanúrslitin myndu raðast.

Akureyri hefur gengið vel með HK-menn í vetur. Fjórum sinnum hafa liðin mæst og alltaf hafa norðanmenn haft betur. Heimir segir það þó ekki skipta neinu máli þegar sjálf úrslitakeppnin hefst.

„Það var bara fyrsti leikurinn sem var öruggur sigur hjá okkur en hinir þrír leikirnar voru hörkuleikir. HK-menn hafa verið stígandi í síðustu leikjum og þeir verða án efa erfiðir.”

Akureyri vann Fram með níu marka mun í Höllinni í kvöld, 35:26, í leik sem var aldrei spennandi. Akureyri tók forystu snemma leiks og lét hana aldrei af hendi. Það var lítið undir í kvöld og því gátu bæði lið leyft sér að keyra á fleiri leikmönnum.

 

„Ég var ánægður með mjög margt í okkar leik í kvöld og það var sérstaklega frábært að fá Hreinsa (Hrein Þór Hauksson) inn í liðið aftur. Við spiluðum hraðann boltan. Við höfum verið þungir upp á síðkastið og lögðum upp með það í kvöld að spila hraða miðju og hafa gaman af þessu,” sagði Heimir.

 

Nýjast