Heimilisfólkinu í Leyningi fjölgaði um helming

Það fjölgaði heldur betur í fjölskyldunni í Leyningi og reyndar í Eyjafjarðarsveit um miðjan ágúst sl. en þá eignuðust þau Thelma Bára Wilhelmsdóttir og Hilmar Sigurpálsson þríbura. Fyrir áttu þau soninn Guðjón, sem er 7 ára og því hefur heimilisfólkinu fjölgað um helming. Sonurinn var hinn ánægaðsti með fjölgunina í fjölskyldunni en hann sagði einmitt þegar þríburarnir fæddust, að nú væri eitt barn á mann til að passa. Þríburarnir, tvær stúlkur og einn drengur, fæddust á Landsspítalanum í Reykjavík 13. ágúst sl. og voru þeir teknir með bráðakeisaraskurði tveimur mánuðum fyrir tímann. Að sögn Thelmu gekk aðgerðin vel og hafa börnin dafnað vel sl. tvo mánuði en þau voru 5 merkur, tæpar 6 merkur og rúmlega 6 merkur við fæðingu. Thelma og Hilmar fengu að vita af því á 6. viku meðgöngu að hún gengi með þríbura og tók það þau nokkra daga að melta þá staðreynd. Thelma sagði þó að meðgangan hefði gengið vel, "en þetta var orðið ansi þungt í lokin." Hún sagði að börnin hefðu verið orðin vel þroskuð þegar þau komu í heiminn, eftir tæplega 32 vikna meðgöngu.

Nýjast