Heilmikil törn undanfarnar vikur

mth@vikubladid.is

„Það hefur verið mikið að gera undanfarnar vikur, það er alltaf heilmikil törn hjá okkur á tímabilinu maí, júní og júlí og engin undantekning í ár,“ segir Sveinbjörn Pálsson sviðsstjóri hjá Slippnum á Akureyri. Hvert skipið á fætur öðru hefur verið í viðhaldi hjá Slippnum og fleiri væntanleg á næstunni.  

„Kvótaárið ræður miklu um hvenær útgerðir senda skipin í viðhald, flestir eru búnir eða langt komnir með kvótann í sumarbyrjun og þá hentar vel að fara í viðhald og vera klár í slaginn, áður en næsta kvótaár hefst 1. september. Á vorin og í byrjun sumars streyma uppsjávarskipin einnig til okkar, en þau hafa þá klárað veiði á einum stofni og stefna á næstu veiðar,“ segir Sveinbjörn.

Um þessar mundir eru þrjú uppsjávarveiðiskip á svæðinu en einnig er að ljúkja heilmiklu verkefni sem hófst um áramót á tveimur skipum sem keypt voru frá Færeyjum en stefna nú til Frakklands undir nýjum nöfnum. Skipin heita Fisher Bank og hefur þegar hafið veiðar og Otter Bank. Sveinbjörn segir að hannað hafi verið og smíðað nýtt vinnsludekk hjá Slippnum í bæði skip sem og lagfæringar á ýmsum öðrum þáttum, viðhaldsviðgerðir á stáli og klæðning í lest sem dæmi. Gert er ráð fyrir að klára þetta verkefni í lok júnímánaðar.

 Byrjað eldsnemma 

Sveinbjörn nefnir að nú sé unnið að viðhaldi á Aðalsteini Jónssyni SU, frá Eskifirði,  Venus NS frá Vopnafirði er einnig í slipp sem og Hákon EA. „Það eru alls konar verk sem verið er að vinna í þessum skipum en öll verða þau máluð. Skipin eru með þeim stærri sem finnast í íslenska skipaflotanum og handtökin því mörg,“ segir hann.

Málningarvinna hefst að jafnaði eldsnemma morguns til að nýta tímann sem best. „Við erum að byrja oft um 4 til 5 á nóttunni og það gengur ágætlega upp á þessum bjartasta tíma ársins.“ 

Í næstu viku er Málmey SK á leið í slipp sem og Harðbakur EA og þá erEgill SH frá Ólafsvík í vélaskiptum.

Hann segir mönnunarstöðu góða, en hjá Slippnum starfa núum 20 farandverkamenn auk fastráðinna starfsmanna, sumarstarfsmanna og samningsbundinna nema í vélvirkjun og stálsmíði.


Athugasemdir

Nýjast