Heilmikil dagskrá á Akureyri í tilefni af degi læsis

Heilmikil dagskrá verður í gangi á Akureyri í dag, bæði í Háskólanum og einnig á Amtsbókasafninu, í tilefni af degi læsis og mun m.a. menntamálaráðherra taka þátt í dagskránni. Frá árinu 1965 hafa Sameinuðu þjóðirnar helgað 8. september málefnum læsis. Að þessu sinni verður haldið upp á daginn á Akureyri með fjölbreyttri dagskrá.  

Í yfirlýsingu frá UNESCO segir að læsi teljist til grunnlífsleikni og lýst yfir að læsi sé kjarni alls náms og varði því alla. Skólaþróunarsvið HA hefur frá stofnun þess 1999 unnið að málefnum læsis. Ákveðið hefur verið að Skólaþróunarsviðið standi ár hvert fyrir dagskrá sem tengist læsi. Annað hvert ár verða ýmiss konar viðburðir en hitt árið verður haldin ráðstefna um læsi, sú fyrsta á Akureyri 11. september 2010. Markmiðið er að vekja athygli á mikilvægi læsis og hvetja til aukins lestrar.

Amtsbókasafnið á Akureyri og Bókasafn HA hafa komið til samstarfs við Skólaþróunarsvið við undirbúning dagskrár Dags læsis 2009: Upplestur í leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum, háskólum og fullorðinsfræðslu. Á degi læsis eru kennarar, nemendur og annað starfsfólk skóla um allt land hvatt til að skipuleggja upplestur innan sem utan kennslustofa í 10 til 15 mínútur milli kl. 11 og 11:30.

Upplestur um allt land.
Á degi læsis er fólk hvar sem er á landinu hvatt til að lesa upp fyrir hvert annað, segja sögur, fara með ljóð eða á annan hátt nota málið til ánægjulegra samskipta. Ákjósanlegur tími er milli 11 og 11:30. Annar tími dagsins og/eða kvöldsins er jafn góður.

Jónsi fréttaritari. Framhaldssaga fyrir börn.
Alþjóðasamband fréttablaða - World Association of newspapers and news publishers (WAN) - gengst fyrir því að blöð geti endurgjaldslaust birt árlega sögu fyrir börn. Í tilefni af degi læsis munu Austurglugginn, Morgunblaðið og Víkurfréttir birta framhaldssöguna Jónsi fréttaritari í átta köflum fyrir börn, en hún er í boði WAN á þessu ári. Sagan er eftir Cathy Sewell og myndskreytt af Blaise Sewell. Kaflarnir birtast einu sinni í viku og eru þýddir af starfsmönnum Háskólans á Akureyri.

Viðburðir í tilefni af Degi læsis
Gefðu mér orð í eyra
Sögur og upplestur
Orðasmiðja
Mínir uppáhalds ritningarstaðir og sálmar
Læsi í leikskóla
Að rista rúnir og rita á kálfskinn
Myndlæsi - lesið í listaverk
Leiðsögn um heima netsins
Að semja sögu með barninu sínu
„Það stóðu þrjár skóflur upp úr gröfinni þegar hún gekk framhjá - "
Fágæti og furðuverk

Þá verður opinn fundur um læsi í Háskólanum á Akureyri í Þingvallastræti 23 í stofu 14 og stendur frá kl. 14:00 til 14:40. Ávörp flytja: Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri og Rósa Eggertsdóttir, sérfræðingur á Skólaþróunarsviði HA. Að loknum framsögum sitja frummælendur fyrir svörum.

Nýjast