Niðurstöður úr viðhorfskönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna á Sjúkrahúsinu á Akureyri, sýna að almennt er starfsfólk ánægt í starfi, það fær stuðning frá samstarfsmönnum sínum og liðsheildin er góð. Þetta kom fram í ávarpi Bjarna Jónassonar forstjóra á ársfundi sjúkrahússins fyrir síðasta ár í gær. Samstarf milli deilda má bæta, við megum vera duglegri að hrósa hvert öðru og veita endurgjöf og bæta þarf upplýsingagjöf. Starfsfólk leggur sig fram um að skila vel unnu verki og er umhugað um gæði þeirrar þjónustu sem veitt er en kallar eftir betri vinnuaðstöðu, tækjum og gögnum. Það sem er verulegt áhyggjuefni er það mikla vinnuálag sem starfsmenn upplifa og tölur sýna. Það er verkefni okkar allra að vinna með þær niðurstöður sem könnunin sýnir og vinna að nauðsynlegum úrbótum, sagði Bjarni.
Hann sagði að almennt hafi gengið vel að manna lausar stöður heilbrigðisstarfsmanna utan þess að misjafnlega hafi gengið að manna lausar stöður sérfræðilækna. Rétt er þó að hafa í huga að frá árinu 2008 hefur sérfræðilæknum fjölgað um 2. Áhyggjuefnið er að á sumum deildum virðist erfitt að leysa mönnunarmál með fastri ráðningu. Ávallt hefur þó tekist að manna þær vaktalínur sjúkrahússins sem til staðar eru. Læknar eldast eins og aðrir og nú eru margir þeirra að nálgast eftirlaunaaldur. Það er markmið stjórnenda að halda áfram að leitast við að manna allar lausar stöður og sækja fram samkvæmt framtíðarsýn til 2017. Meðal annars af þeim ástæðum tekur Sjúkrahúsið á Akureyri þátt í verkefni á vegum Evrópusambandsins sem miðar að því að finna lausnir sem virka við að ráða og halda í heilbrigðisstarfsfólk á strjálbýlum svæðum í Norður-Evrópu.
Bjarni sagði að sérstakar fjárveitingar hafi verið veittar til endurbóta á húsnæði sjúkrahússins undanfarin ár. Þær hafi gert kleift að bæta aðstöðu sjúklinga og starfsfólks. Á árinu var lokið framkvæmdum á legudeildum og aðstöðu á Kristnesspítala. Einnig var lokið við áfanga í endurnýjun lagna í elsta byggingarhluta sjúkrahússins og á handlækningadeild voru gerðar endurbætur á húsnæði legudeildar. Í desember fékkst sérstök fjárveiting til endurbóta á fæðingadeildinni sem nú eru að komast á lokastig. Innan skamms verða opnaðar þar tvær nýjar fæðingarstofur sem bæta munu þjónustu við konur í fæðingu auk þess sem aðstaða starfsfólks stórbatnar, sagði Bjarni.
Fjármagn til kaupa á tækjum og búnaði hefur dregist saman undanfarin ár og dugar skammt til að standa undir endurnýjun tækjabúnaðar og fylgja eftir framþróun og tækni, að sögn Bjarna. Því höfum við orðið að treysta á gjafaframlög sem eru sjúkrahúsinu mjög mikilvæg. Starfsmenn þakka þann hlýhug og velvilja sem stofnuninni er sýndur af öllum þeim sem hlaupið hafa undir bagga með framlögum sínum, smáum sem stórum.
Starfsemi fyrstu fjóra mánuðina er meiri en á sama tíma á síðasta ári. Sjúklingum hefur fjölgað um 9,5% miðað við sama tímabil á síðasta ári. Komur á dag- og göngudeildir hafa aukist stöðugt. Skurðaðgerðum fjölgaði um 3,5% og fæðingum um 34%. Það verður að segja þá sögu eins og hún er að nú er víða komið fast að þolmörkum. Ekki verður haldið áfram með óbreytta þjónustu fyrir íbúa þjónustusvæðis okkar án frekari fjárveitinga. Í ljósi þessa skýtur það skökku við að á sama tíma og sjúkrahúsum er gert að hagræða þá sé enn hægt að sækja fé til einkarekinnar heilbrigðisþjónustu til Sjúkratrygginga Íslands, sagði Bjarni.