Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Móahverfi í sumar og er hverfið óðum að taka á sig sína réttu mynd. Greint er frá þessu á heimasíðu Akureyrarbæjar.
Byggingarleyfi fyrir 223 íbúðum hafa verið gefin út og búið er að samþykkja byggingaráform fyrir 64 íbúðir til viðbótar. Þar að auki hefur lóðum fyrir 42-46 íbúðir verið úthlutað. Enn á eftir að úthluta 18 einbýlishúsalóðum í Móahverfi og verða þær boðnar út innan tíðar.
Alls er gert ráð fyrir að byggðar verði um 1.100 íbúðir í hverfinu á næstu árum og að þar muni um 2.400 manns búa.