Kynning á Vettvangsakademíunni á Hofstöðum í Mývatnssveit fór fram miðvikudaginn 6. ágúst við frábærar aðstæður. Gestir nutu bæði fróðleiks og góðrar stemningar í hlýju og mildu veðri. Þetta kemur fram á heimasíðu Þingeyjarsveitar.
Fornleifafræðingarnir Hildur Gestsdóttir og Orri Vésteinsson leiddu gesti um svæðið og sögðu frá bæði nýjustu rannsóknunum og hinni merku sögu Hofstaða. Þar má meðal annars finna minjar um búsetu frá landnámstíð, þar á meðal veisluskála frá 10. öld sem er stærsta hús sem grafið hefur verið upp á Íslandi og á við stærstu hús Norðurlanda frá sama tíma. Að auki hafa meðal annars verið grafin upp kirkja og kirkjugarður og nú standa yfir rannsóknir á bæjarhólnum, fornri smiðju og mögulegum kumlateig.
Vettvangsakademían á Hofstöðum er samstarfsverkefni Háskólans á Hólum, Háskóla Íslands og Minjastofnunar Íslands, í samvinnu við Urðarbrunn menningarfélag, Hið þingeyska fornleifafélag og Þingeyjarsveit. Markmið hennar er að skapa þverfaglegan vettvang fyrir rannsóknir, kennslu og miðlun menningararfs í bland við ferðamálafræði og hönnun.
Viðburðurinn sýndi glöggt áhuga almennings á að kynnast menningararfi svæðisins og tækifærunum sem felast í að gera hann aðgengilegan fyrir alla.