A! Gjörningahátíð kallar eftir gjörningum eða hugmyndum frá listafólki úr öllum listgreinum og öðrum áhugasömum um hátíðina, sem fram fer 9.-12. október næstkomandi. Valið verður úr innsendum hugmyndum og fá þátttakendur greiddar 80.000 krónur í þóknun. Áhugasamir eru beðnir um að senda umsókn á umsokn@listak.is ásamt textalýsingu á hugmynd og sýnishorni í myndformi af fyrri verkum. Umsóknarfrestur er til og með 22. ágúst næstkomandi.
A! er fjögurra daga alþjóðleg gjörningahátíð sem nú er haldin í ellefta sinn. Í ár verður sú nýjung að boðið verður upp á gjörningasmiðjur fyrir yngri kynslóðina og afraksturinn sýndur á síðasta degi hátíðarinnar.
Gjörningahátíðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Leikfélags Akureyrar, Menningarhússins Hofs, Gilfélagsins, Myndlistarfélagsins, Vídeólistahátíðarinnar Heim og Listnámsbrautar Verkmenntaskólans á Akureyri.
Á hverju ári breytist Akureyri í suðupott spennandi gjörninga og leikhústengdra verka af öllum toga. Þátttakendur eru ungir og upprennandi listamenn, ásamt reyndum og vel þekktum gjörningalistamönnum, dans- og leikhúsfólki. Á meðal þeirra sem komið hafa fram á hátíðinni eru Sigurður Guðmundsson, Gjörningaklúbburinn, Hildur Hákonardóttir, Rúrí, Theatre Replacement, Katrín Gunnarsdóttir, Listahópurinn Kaktus, Curver Thoroddsen, Tales Frey, Anna Richardsdóttir, Hekla Björt Helgadóttir, Yuliana Palacios, Egill Logi Jónasson og Halldór Ásgeirsson. Að venju verður frítt inn á alla viðburði hátíðarinnar.