Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra íhugar dagsektir verði tiltekt ekki lokið fyrir 10. desember
Heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra gaf í haust lóðarhafa við Hamragerði frest til að ljúka tiltekt á lóð sinni til 20. október. Á fundi nefndarinnar á dögunum kom fram að staðfest hafi verið við skoðun á lóðinni 2. nóvember síðastliðinni að tiltekt væri ekki lokið.
Samþykkti nefndin að áminna lóðarhafa vegna brota er varða umgengni og þrifnað utan húss á starfsvæði hennar og var sú áminning veitt í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir. Jafnframt samþykkti nefndin að veita lóðarhafa lokafrest til 10. desember nk. til þess að ljúka tiltekt á lóðinni. Tæki og hluti sem ekki eru í almennri eða stöðugri notkun skal geyma þannig að nágrannar og vegfarendur hafi ekki ama af. Bifreiðar og önnur skráningarskyld ökutæki skal geyma á þar til gerðum stæðum segir í bókun nefndarinnar og jafnframt að hún íhugi að beita dagsektum verði ekki brugðist á fullnægandi hátt við fyrir 10. desember.
Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra segir að áminning sé vægasta þvingunarúrræði sem lög leyfa.
Hann segir að í einhverjum tilfellum hafi nefndin krafist þess að umgengni á einkalóðum sé bætt, en þá er oft um að ræða að bílum og öðrum lausamunum sé safnað upp í miklum mæli á og við lóðirnar. Sáralítið sé um kvartanir eða ábendingar vegna númerslausra bíla á einkalóðum, enda hafi menn ákveðið frjálsræði varðandi umgengni á einkalóðum sínum. „Við erum að ekki að skipta okkur af númerslausum bílum inn á einkalóðum nema af þeim stafi mengunar eða slysahætta til dæmis olíuleki eða brotnar rúður. „
Athugasemdir