Hátt í þúsund manns á Evróvisjón tónleikum í Hofi

Tvennir Evróvisjóntónleikar voru haldnir í Hofi laugardaginn 5. maí þar sem Evróvisjónlög frá 1956 til dagsins í dag voru flutt. Gestir töldu hátt í eitt þúsund og mikil ánægja ríkti meðal þeirra með frammistöðu flytjenda. Söngvararnir Friðrik Ómar og Regína Ósk fóru á kostum. Þau slógu á létta strengi milli laga og hrifu áheyrendur með vönduðum söng sínum og sviðsframkomu og voru sérlega glæsileg þegar þau sungu lagið “This is my life” í viðhafnarútgáfu í tilefni tónleikanna. Friðrik Ómar vakti sérstaka lukku í gervi Fridu  úr ABBA íklæddur fjólubláum pallíettukjól, rauðum háhæluðum skóm og með myndarlegt liðað rautt hár.

Sinfóníuhljómsveitin undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar þótti ljá áður þekktum lögum nýjan tón með góðu liðsinni 25 manna kórs og bakradda í  hljómsveitarútsetningum Matis Podra. Flutningur Evróvisjónfaranna Gretu Salóme og Jónsa á laginu Never forget setti svo punktinn yfir i-ið og vakti mikla lukku og fólk var sérlega ánægt tækifærinu að sjá og heyra lagið “life”. Tónleikarnir enduðu með standandi lófaklappi, húrrahrópum og blístri og allt ætlaði vitlaust að verða þegar hljómsveitin og söngvarar fluttu uppklappslagið “Nína”.

Nýjast