Með stofnun Háskólans á Akureyri árið 1987 var í fyrsta sinn boðið upp á fjölbreytt háskólanám utan Reykjavíkur á forsendum landsbyggðarinnar. Skólinn hefur dregið að sér nemendur og kennara innan lands og utan og byggt Akureyri upp sem háskólabæ allra landsmanna jafnframt því sem skólinn hefur verið í fararbroddi við þróun fjarnáms. Námið veitir traustan grunn til starfa á margvíslegum vettvangi, ekki síst í þágu fjölbreyttra samfélaga vítt og breitt um landið. Þannig standa kennarar t.d. í fremstu röð í rannsóknum á skólastarfi í fámennum skólum; hjúkrun í dreifðum byggðum; nýsköpun á landsbyggðinni; samgöngum og byggðaþróun o.sv.frv. Brautskráðir nemendur búa því yfir hagnýtri og fræðilegu þekkingu sem nýtist til starfa á landsbyggðinni ekki síður en á höfuðborgarsvæðinu eða á fjarlægari slóðum.
Frá hausti 2011 verður félagsvísindanámið sem byggir á þessari sérstöðu háskólans einnig í boði í fjarnámi. Fjarnemar munu hafa aðgang að fyrirlestrum á netinu en tvisvar á misseri hittast staðar- og fjarnemar í stuttum námslotum á Akureyri. Þar kynnast nemendur kennurum sínum, sitja fyrirlestra saman og taka þátt í umræðutímum en taka próf í fjarkennslumiðstöðvum um land allt. Auk náms í sálfræði, fjölmiðlafræði og nútímafræði verður boðið upp á almennt nám í félagsvísindum byggt á aðferðum og kenningum félagsfræði, mannfræði og stjórnmálafræði. Meðal efnis má nefna samband einstaklings og samfélags, hnattvæðingu og íslenska þjóðfélagsþróun og hugmyndastrauma 20. aldar. Nemendur geta valið áherslu á tilteknu sviði sem kemur fram á útskriftarskírteini.
Nám í félagsvísindum með áherslu á byggðafræði veitir innsýn í þjóðfélagsbreytingar á Íslandi og margþætt samspil félagsgerðar, menningar, stjórnmála og efnahagslífs. Kennarar og nemendur við Háskólann á Akureyri hafa m.a. unnið að rannsóknum á áhrifum stóriðju á byggðaþróun, samgöngubótum í afskekktum byggðarlögum og orsökum og afleiðingum fólksflutninga innan lands og utan. Starfsemi RHA og Byggðarannsóknastofnun Íslands á háskólasvæðinu veitir nemendum margvísleg tækifæri til náms og starfa.
Námi í félagsvísindum með áherslu á ferðamálafræði felst í samfélagsrýni og skilningi á samtímamenningu í samhengi við markaðssetningu og stjórnun í ferðaþjónustu í dreifðum byggðum Íslands og jaðarsvæðum norðurslóða. Námið byggir á grunnnámi í félagsvísindum með áherslu á ferðamálafræði í samvinnu við Háskólann á Hólum og Rannsóknamiðstöð ferðamála. Tengsl við ýmsa hagsmunaaðila gefa færi á að samnýta aðstöðu og styrkja samband háskólastarfs og atvinnulífs.
Nám í félagsvísindum með áherslu á kynjafræði byggir á samstarfi við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Rannsóknir á sviði kynjafræði hafa farið ört vaxandi við Háskólann á Akureyri á síðustu árum, m.a. á stöðu kynjanna í þéttbýli og dreifbýli, breytingum á fjölskyldum og jafnrétti á heimilum, kynhegðun unglinga og stöðu samkynhneigðra. Þessi áhersla nýtur jafnframt góðs af Jafnréttisstofu á háskólasvæðinu.
Nám í félagsvísindum með áherslu á norðurslóðafræði beinist að félagslegri og hagrænni þróun á norðurslóðum í samhengi við hnattvæðingu, umhverfisbreytingar, auðlindanýtingu, mannauð og sjálfbærni. Á undanförnum árum hafa nemendur m.a. farið í vettvangsferðir til Grænlands, Rússlands, Lapplands og Finnmerkur. Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á háskólasvæðinu leggur áherslu á fræðilegar og hagnýtar lausnir á viðfangsefnum sem sérstaklega tengjast norðurslóðum.
Nám í félagsvísindum með áherslu á æskulýðsfræði byggir á samstarfi við kennaradeild og heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri og námsbraut í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslands. Rannsóknasetur forvarna við HA tekur fyrir Íslands hönd þátt í tveimur helstu alþjóðlegu rannsóknaverkefnum samtímans á sviði æskulýðsfræði sem ná til skólanema í rúmlega fjörutíu löndum á fjögurra ára fresti og eru gögn þeirra aðgengileg nemendum við Háskólann á Akureyri.
Brautskráðir B.A.-nemar í félagsvísindum eru eftirsóttir á vinnumarkaði enda búa þeir yfir góðri grunnþekkingu á þjóðfélaginu, færni í aðferðafræði, öguðum vinnubrögðum og þjálfun í hlutlægri greiningu. Áhersla í námi getur einnig lagt grunn að störfum t.d. við sveitarstjórnar- og byggðamál, ferðaþjónustu, málefni norðurslóða, jafnréttismál eða tómstundastörf. Þá geta nemendur öðlast kennsluréttindi á framhaldsskólastigi við kennaradeild.
Námið veitir þeim jafnframt forskot sem hyggja á framhaldsnám að BA-gráðu lokinni. Kennarar taka virkan þátt í alþjóðlegu fræðistarfi og vinna með nemendum sínum að rannsóknum sem vakið hafa athygli á síðustu árum. Nemendur fá þjálfun í framkvæmd rannsókna og framsetningu á niðurstöðum fyrir almenning og fræðimenn. Brautskráðir nemendur frá HA hafa fengið skólavist í meistara- eða doktorsnámi í félagsvísindum við ýmsa virtustu háskóla heims og staðið sig með prýði. Í því felst mikilvæg viðurkenning á gæðum þess náms sem boðið er upp á við Háskólann á Akureyri.
Höfundur er prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri