Harma ákvörðun Guðmundar

Í yfirlýsingu sem stjórn og trúnaðarmannaráð Sjómannafélags Eyjafjarðar hefur sent frá sér er hörmuð sú ákvörðun Guðmundar Kristjánssonar forstjóra að breyta skráningu togara með áratuga farsæla útgerðarsögu á Akureyri án útskýringa og sýnilegs tilgangs.  

Yfirlýsingin kemur í kjölfar snarpra orðaskipta milli Konráðs Alfreðssonar formanns Sjómannafélagsins og Guðmundar um samskipti Brims og sjómannasamtakanna hér á svæðinu.  Hér á eftir fer yfirlýsing Sjómannafélagsins í heild sinni:

"Hið sanna um samskipti Sjómannafélags Eyjafjarðar og Brims hf."

- Yfirlýsing frá stjórn og trúnaðarráði Sjómannafélags Eyjafjarðar 13. janúar 2007

Í kjölfar ákvörðunar Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims hf., um að breyta umdæmisstöfum togara fyrirtækisins úr EA í RE hefur hann varist spurningum fjölmiðla um ástæður þess með því að ráðast með ósmekklegum hætti að Sjómannafélagi Eyjafjarðar, stjórn þess, starfsmönnum og félagsmönnum öllum. Stjórn og trúnaðarráð Sjómannafélags Eyjafjarðar harmar þá ákvörðun forstjórans að breyta nú skráningu togara með áratuga farsæla útgerðarsögu að baki á Akureyri án útskýringa og sýnilegs tilgangs.

Það er hins vegar fullkomlega ljóst að vald Guðmundar sem forstjóra og aðaleiganda Brims til þessa gjörnings er ótvírætt en eðlilega er spurt um ástæður hjá hinu gróna útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki Akureyringa. Stjórn og trúnaðarráð Sjómannafélags Eyjafjarðar telur sig knúna til að leiða hið sanna í ljós um samskipti félagsins og Brims hf. í ljósi þeirra miklu yfirlýsinga og ósanninda sem forstjórinn hefur látið frá sér fara í fjölmiðlum.

Ásakanir um óbilgirni og skort á samningsvilja

Forstjóri Brims hefur opinberlega sakað Sjómannafélag Eyjafjarðar um skort á samningsvilja, óbilgirni og annað í þeim dúr. Forstjórinn hefur fullyrt að félagið standi í vegi fyrir þróun í útgerð fyrirtækisins. Ekkert er fjarri sanni.

Í fyrsta lagi ber að hafa í huga að allir sjómenn í landinu, í hvaða félagi svo sem þeir eru, róa samkvæmt gildandi kjarasamningi sjómanna og útgerðarmanna. Um sérkjarasamninga, einstaklingsbundna eða áhafnarbundna, er ekki að ræða en þó er gert ráð fyrir að hægt sé að gera samkomulag um frávik frá kjarasamningnum um hafnarfrí og vegna nýrra verkunaraðferða.

Hér skulu nefnd þau tvö tilvik sem á slíkt hefur reynt við Brim á undanförnum árum.

1. Snemma árs 2006 var gert samkomulag um frávik frá hafnarfríi vegna togarans Harðbaks. Megin inntak þess samnings var breyting á inniverufyrirkomulagi og góð sátt náðist með samkomulagi um það mál sem undirritað var 6. mars 2006.  

2. Þann 9. nóvember 2006 samþykktu áhafnir togaranna Sólbaks og Árbaks án mótatkvæða samning um paratrollsveiðar skipanna tveggja. Ákvæði um slíkar veiðar er ekki að finna í aðalkjarasamningi og því var nauðsynlegt að taka upp viðræður við útgerðina um þetta ákvæði. Þó í fyrstu kröfum hafi útgerðin lagt áherslu á að sjómenn tækju að sér löndun skipanna var fallið frá því og samningurinn undirritaður. Samningsgerðin tafði á engan hátt fyrir fyrirtækinu við þessar breytingar útgerðarhátta og ekki getur forstjóri Brims kvartað yfir niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar.

Með öðrum orðum standa engin ágreiningsefni um kjarasamninga út af borðinu milli Sjómannafélags Eyjafjarðar og Brims hf. Fullyrðingar um óbilgirni og engan samningsvilja sjómanna hljóta því að hljóma meira en lítið ósanngjarna fyrir sjómenn, sér í lagi starfsmenn Brims hf. um borð í umræddum skipum sem samþykktu þessa samninga með nánast öllum greiddum atkvæðum.

Ásakanir um tilhæfulausar kærur

Hinn hluti fullyrðinga Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims hf., snýr að ásökunum um kærur frá Sjómannafélaginu á hendur útgerðinni fyrir brot á kjarasamningum. Tvær kærur hafa verið sendar fyrirtækinu sem hér skal gerð grein fyrir.

Kæra var send Brimi í janúar 2005 vegna brots á ákvæðum um lengd veiðiferðar. Brotið átti sér stað í nóvember 2004 þegar togarinn Sléttbakur var á sjó í 50 sólarhringa en heimild er um hámark 40 sólarhringa útiveru í kjarasamningi. Fyrirtækið hafði uppi ágreining um þessa kröfu og tapaði málinu fyrir Félagsdómi 16. júní 2005 og greiddi sekt, svo sem ber samkvæmt kjarasamningi.

Kæra var send vegna fyrstu paratrollsveiðiferðar togaranna Sólbaks og Árbaks í október 2006. Brotið var gegn ákvæðum kjarasamnings um lengd inniveru. Áðurnefndur samningur milli útgerðar og sjómannafélagsins lá ekki fyrir samþykktur af áhöfnum fyrr en 9. nóvember þannig að um inniveru giltu, þegar veiðiferðin átti sér stað, aðeins ákvæði almenns kjarasamnings sjómanna og útgerðarmanna. Brim hefur enga athugasemd gert við þessa kröfu en ekki greitt enn samkvæmt sektarákvæðum kjarasamnings.

Engin ágreiningsefni á borðinu

Framangreint eru samskipti Brims við Sjómannafélag Eyjafjarðar sem forstjóri Brims kýs að saka um "óbilgirni", "skort á samningsvilja", "engan samstarfsvilja", "standa gegn framþróun" og þar fram eftir götum. Af framangreindu má sjá að ekkert stendur út af borði hvað varðar kjarasamninga og sjómenn standa félaginu ekki fyrir þrifum í breyttu útgerðarmynstri. Sé það svo að þetta mál snúist um að Brim vilji ekki hlíta eigin kjarasamningum er það agavandamál innan LÍÚ. Sjómenn og útgerðarmenn bera jafn mikla ábyrgð á kjarasamningi og sjómenn treysta því að LÍÚ líði ekki eigin félagsmönnum að komast upp með endurtekin brot á kjarasamningi sem báðir eiga aðild að. Til hvers væru ákvæði kjarasamninga ef viðtekin venja væri af hálfu annars aðilans að brjóta þau?

Snúist þetta mál um að forstjóri Brims sé með skipulögðum hætti að hafa áhrif á stéttarfélagsaðild starfsmanna sinna er það ekki einungis siðferðilega ósmekklegt heldur og einnig brot á vinnulöggjöf í landinu. Áhafnarmeðlimir Brims eiga áfram skýlausan rétt til eigin ákvörðunar um stéttarfélagsaðild og greiðslu sinna félags-, sjúkra- og orlofssjóðsgjalda hvaða einkennisstafi svo sem togarar Brims bera.

Sé forstjóri Brims að gefa í skyn með aðgerð sinni og ummælum að hann komist upp með brot á samningum með skip sín skráð í Reykjavík frekar en Akureyri hlýtur slíkt háttalag að dæma sig sjálft.  

Stjórn og trúnaðarráð Sjómannafélags Eyjafjarðar vísa hér með á bug með rökum að hægt sé að kenna félaginu um þá aðgerð Brims að flytja skip félagsins til höfuðborgarsvæðisins. Fyrir því hlýtur Guðmundur Kristjánsson, aðaleigandi Brims, að hafa aðrar ástæður sem hann kýs að halda utan dagsljóssins.

Stjórn og trúnaðarráð Sjómannafélags Eyjafjarðar

Nýjast