01. mars, 2007 - 14:39
Fréttir
Mjög harður árekstur varð á gatnamótum Glerárgötu og Þórunnarstrætis á Akureyri nú fyrir stundu, þar sem þrír bílar komu við sögu, tveir fólksbílar og jeppi. Beita þurfti klippum til að ná ökumanni annars fólksbílsins út úr bílnum og var hann fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild FSA. Samkvæmt upplýsingum Vikudags, skullu fólksbílarnir saman á Glerárgötunni og kastaðist annar þeirra á jeppa, sem var kyrrstæður á rauðu ljósi neðst í Þórunnarstrætinu. Fólksbílarnir eru mikið skemmdir ef ekki ónýtir og jeppinn skemmdist töluvert að framan. Mikil hálka er á götum Akureyrar og er ástæða til að hvetja ökumenn til að fara með gát.