Handverk er hugmynd
Listmálarinn Stefán Boulter heldur fyrirlestur í Ketilhúsinu á Akureyri kl. 17:00 í dag undir yfirskriftinni Handverk er hugmynd. Þar mun hann fjalla um sín eigin verk og vekja upp nokkrar áleitnar spurningar um listsköpun en Stefán hefur verið ötull talsmaður þess að sameina aftur handverk og hugmynd í listsköpun. Hann flokkar verk sín sem kitsch en til að lýsa þeim á auðskiljanlegri hátt kallar hann þau einnig ljóðrænt raunsæi.
Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn sem er sá níundi í röð fyrirlestra sem haldnir eru í Ketilhúsinu á hverjum þriðjudegi kl. 17 undir yfirskriftinni Þriðjudagsfyrirlestrar. Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Á næstu vikum tala Giorgio Baruchello og Kazuko Kizawa.
Stefán nam myndlist í Bandaríkjunum, Ítalíu og Noregi og hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði á Íslandi og erlendis. Hann kennir við Myndlistaskólann á Akureyri.