Bókin Hið ljúfa læsi, handbók um læsikennslu fyrir kennara og kennaranema, var nýlega gefin út en bókin er eftir Rósu Eggertsdóttur og fjallar um læsi og læsiskennslu í 1.–10. bekk. Við ritun bókarinnar var leitað í smiðju fjölda erlendra fræðimanna sem hafa rannsakað árangursríka læsiskennslu.
Leitast er við að kynna hagnýtar leiðir í kennslu sem taka mið af þessum rannsóknum. Inn í læsiskennslu fléttast námsaðlögun, samvinnunám, samræða í námi, félagastuðningur, áætlanagerð, sjálfstæð vinnubrögð og athafnamiðað nám. Tveir kaflanna fjalla um Byrjendalæsi og Fluglæsi sem kynnt er í fyrsta sinn. Bókin er alls 510 blaðsíður, þar af 240 síður innbundnar og 270 síður á minnislykli.
Bókin nýtist foreldrum vel
Rósa Eggertsdóttir hefur unnið að framgangi læsis í fjölda ára í samvinnu við fjölmarga skóla víða um land, fyrst sem deildarstjóri á Fræðsluskrifstofu Norðurlands eystra og deildarstjóri hjá Skólaþjónustu Eyþings og sem sérfræðingur hjá Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri um 14 ára skeið. Hún hefur haft umsjón með þróunarverkefnum um læsi í skólum, haldið námskeið og flutt erindi á ráðstefnum, samið námsefni og próf, skrifað skýrslur og birt fræðilegt efni um læsi og leshömlun.
Þá segir í tilkynningu að þótt bókin sé skrifuð með kennara og kennaraefni í huga, geti hún vel nýst foreldrum sem vilja styðja við læsisnám barna og unglinga. Hið ljúfa læsifæst í Bóksölu stúdenta, Bóksölu kennaranema, Vefsölu A4 og Pennanum–Eymundsson í Austurstræti og á Akureyri.