Hamfaratækifærin

Edward H. Huijbens
Edward H. Huijbens

Eins og oft náði Baggalútur utan um umræðu síðustu viku þegar þeir lýstu því hvernig forsætisráðherra „varð á að læka loftslagsbreytingar“. Upphrópanir og svör féllu í nokkuð fyrirsjáanlega farvegi og lítið fór fyrir rýni á inntak ummæla forsætisráðherra. Ég ætla hér að sýna viðleitni í þá átt.

Tækifærismennska

Forsætisráðherra lítur réttilega á það sem skyldu landshöfðingja að halda á lofti jákvæðum hliðum þess sem við okkur blasir og sameina fólk í bjartsýni á framtíðina. Almennt séð má taka vel undir þetta, en það sem okkur ber að ræða er forsendur bjartsýninnar. Það er hér sem forsætisráðherra brást okkur. Hans bjartsýni snérist um fugla í skógi. Tækifæri sem eru  augljóslega fráleit ef til meiriháttar hnattrænna hamfara kemur. Tómt mál er að tala um meiriháttar vöruflutninga, uppbyggingu fleiri álvera á grænni orku hérlendis, gagnavera eða annarra stórverksmiðja í heimi sem verður meira eða minna í upplausn vegna hungurs og þjóðflutninga milljarða. Hvað varðar námavinnslu, þjónustu þar við, olíu og gasvinnslu, þá er þetta langt í framtíðinni, fyrir utan okkar reynslu og þekkingarsvið og siðferðilega vart verjandi þegar sannað er að það er nákvæmlega þetta sem veldur þeim hamförum sem spáð er. Því miður er forsætisráðherra einfaldlega sekur um tækifærismennsku í ætt við útrásarvíkinga fyrir-hruns áranna. Viðmiðið er að svo lengi sem við komumst upp með að græða eitthvað á því, þá auðvitað á að gera það án tillits til undirstöðu eða framtíðar.

Menntun og efling andans

Þá kemur að því hvernig ég mundi vilja nálgast efnið. Af yfirvegun og hógværð fyrst og fremst. Íslendingar byggja velmegun sína á fiskinum í sjónum. Ég vil ræða hvernig við getum brugðist við hlýnun hafsins í kringum landið og hvernig hún getur haft áhrif á fiskistofna og fiskgengd. Ég vil ræða súrnun hafsins og hvað það þýðir fyrir vistkerfi hafsins hér við land og hvaða „tækifæri“ við eigum til að bregðast við því. Ég vil ræða hvað við gerum ef hagkerfi heimsins fer í alvarlega kreppu vegna loftslagsvanda, eftirspurn eftir áli hverfur og fólk hættir að geta ferðast. Á þessu byggir nefninlega velmegun okkar utan við fiskinn. Hér er fjöldi tækifæra fyrir Íslendinga til að bregðast við, fjöldi sóknarfæra til að styrkja undirstöður framtíðar okkar. Ég vil bregðast við þeim vanda sem vísindanefnd SÞ um loftslagsbreytingar bendir á með eflingu menntunar á sviði auðlindanýtingar, nýsköpunar, hönnunar og skapandi hugsunar. Okkar eina leið til að finna lausnir og tækifæri í ófyrirsjáanlegri framtíð er að búa fólk undir hana með menntun og eflingu andans.

 Edward H. Huijbens

- Edward  skipar 2. sæti á lista VG Akureyri fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar  

(milliifyrirsagnir eru gerðar af vikudagur.is)

Nýjast