Útibú Arion banka á Akureyri mun flytja starfsemi sína í Glerártorg á næsta ári. Verður þjónusta bankans á einni hæð. Útibúið hefur verið staðsett í núverandi húsnæði við Geislagötu 5 frá árinu 1959 og því um töluverð tímamót að ræða í bankastarfseminni á svæðinu. Stefnt er að því að opna í Glerártorgi fyrri part næsta árs samkvæmt upplýsingum Vikudags.
Nýju útibúin eru hönnuð með stafrænar þjónustuleiðir Arion banka í huga. Í tilkynningu frá bankanum segir að markmiðið sé að gera þjónustu bankans aðgengilegri og þægilegri fyrir viðskiptavini. Staðsetning útibúanna er valin með það í huga að þau séu í leiðinni fyrir fólk sem er að sinna daglegum erindum og áhersla er lögð á sveigjanlegri þjónustutíma.