„Hagræðingin í rekstri ríkisins er að mínu mati óljós"

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í NA-kjördæmdi, átti í morgun fund með nýjum lögreglustjóra á Norðurlandi eystra þar sem helsta umræðan var fyrirhuguð lokun fangelsisins á Akureyri. Njáll Trausti greinir frá á Facebooksíðu sinni að sl. þriðjudag hafi þingmenn kjördæmisins átt fund með dómsmálaráðherra varðandi stöðu þessa máls.

„Á þeim fundi óskaði ég eftir ákveðnum gögnum þannig að hægt væri að skoða með heildstæðum hættu stöðu máls. Reyndar hef ég viðað að mér töluvert af upplýsingum og gögnum eftir bestu getu síðustu tíu daga og átt ágæt samtöl við ráðherra. Mikilvægt að upplýstar ákvarðanir séu teknar í þessu viðkvæma máli."

Njáll Trausti segir ekki skýrt hvernig á að draga fram hagræðingu með þessum hætti.

„Hagræðingin í rekstri ríkisins er að mínu mati óljós. Það hafa ekki allar hliðar málsins verið skoðaðar í stóra samhenginu. Þá til dæmis hvaða áhrif þetta hefur á rekstrarkostnað lögreglunnar á Norðurlandi eystra. Heildarmyndin af þessum aðgerðum hafa ekki verið kynntar.

Einnig er það mín tilfinning að öflugt samfélag eins og við þekkjum á Akureyri geti boðið upp á aðstæður þar sem fyrirmyndar betrunarvist er til staðar. Aðgengi að öflugu námi, fjarnámi bæði á framhaldsskólastigi og háskólastiginu. Skólar sem hafa verið leiðandi á sviði fjárnáms um áratugaskeið.

Einnig er rétt að hafa í huga að á undanförnum mánuðum hefur verið lagt til töluvert meira fjármagn til uppbyggingar sálfræðiþjónustu við heilsugæsluna á Akureyri og til geðteymisvinnu tengt Sjúkrahúsinu á Akureyri.

Áslaug Arna hefur sýnt í verki að þar fer öflugur ráðherra sem hefur skilað góðu verki þetta ár sem hún hefur í embætti. Ég hef fulla trú á að frekari vinna verði lögð í þetta mál á næstu dögum og vikum þar sem fleiri hliðar máls verða skoðaðar,“ skrifar Njáll Trausti.

 


Athugasemdir

Nýjast