Sævar Helgason framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa segir í tilkynningu frá félaginu að hann sé ánægður með afkomu félagsins á árinu 2009. „Við getum ekki annað en verið sátt við þessa niðurstöðu, ekki síst þegar horft er til þeirra breytinga sem orðið hafa á íslenskum fjármálamarkaði ." Að sögn Sævars felst styrkur félagsins í þeirri sérstöðu sem það hefur skapað sér og þeirri stefnu að vera hlutlaust og sérhæft eignastýringafyrirtæki.
„Starfsemi Íslenskra verðbréfa felst eingöngu í því að gæta hagsmuna viðskiptavina sinna en félagið stundar hvorki útlánastarfsemi né fjárfestir fyrir eigin reikning. Við erum eitt af fáum fjármálafyrirtækjum á Íslandi sem ekki hefur fengið ríkisaðstoð og erum með heilbrigðan rekstur og efnahag og skilum hagnaði við þessar erfiðu aðstæður."
Sævar bætir við að árið hafi verið mjög viðburðarríkt hjá Íslenskum verðbréfum, sem starfað hefur frá árinu 1987. „Í sumar var okkur treyst fyrir rekstri verðbréfasjóða sem áður voru starfræktir af Rekstrarfélagi SPRON hf. Við lögðum gríðarlega vinnu í að leysa það verkefni vel þannig að viðskiptavinir SPRON fyndu lítið fyrir breytingunni. Það virðist hafa tekist því langflestir þeirra hafa haldið tryggð við okkur og við sjáum m.a. aukningu í sjóðum á borð við Áskriftarsjóð ríkisverðbréfa."
Á árinu opnuðu Íslensk verðbréf skrifstofu í Reykjavík að Sigtúni 42 og þar eru nú tveir starfsmenn. „Við höfðum um nokkurt skeið íhugað að taka þetta skref og fundum fyrir miklum áhuga almennings og fagfjárfesta á höfuðborgarsvæðinu. Starfsemin hefur farið vel af stað og stendur til að fjölga starfsmönnum þar ef svo fer fram sem horfir."
Íslensk verðbréf voru stofnuð árið 1987 og eru sérhæft eignastýringarfyrirtæki sem sinnir viðskiptavinum um land allt. Starfsmenn eru 21 talsins og kjarni þeirra hefur starfað hjá félaginu í 10 ár eða lengur.
Höfuðstöðvar félagsins eru að Strandgötu 3, Akureyri og afgreiðsla er opin frá kl. 9 til 16 alla virka daga. Jafnframt er skrifstofa að Sigtúni 42 í Reykjavík þar sem viðskiptavinir geta sótt alla þjónustu. Skrifstofan er opin frá kl. 9 til 12 og 12:30 til 16 alla virka daga.