21. mars, 2007 - 13:32
Fréttir
Rekstrarreikningur Norðurorku hf. fyrir árið 2006
sýnir hagnað fyrir fjármagnsliði og skatta upp á 492 milljónir samanborið við 323 milljóna króna hagnað árið 2005. Tap fyrir skatta var 66 milljónir króna á árinu 2006 samanborið við 301 milljóna króna hagnað árið 2005. Helsta skýring á þessum mun er gengistap vegna langtímaskulda, samtals 521 milljónir króna en var 28 milljónir króna árið 2005. Meginhluti langtímaskulda Norðurorku hf. er í erlendri mynt Auk þessa var gerð sérstök gjaldfærsla að upphæð 50 milljónir vegna náttúruhamfara sem leiddu til umtalsverðs tjóns hjá dótturfélaginu Fallorku ehf. Rekstrartekjur ársins 2006
námu um 1.740 milljónum króna en voru um 1.684 milljónir árið 2005. Þessi tekjuauki felst í fjölgun viðskiptavina þar sem verð á söluvörum fyrirtækisins ýmist lækkaði eða stóð í stað á árinu. Þær verðlækkanir sem stjórn félagsins ákvað á heitu vatni og raforku á árinu minnkuðu tekjur miðað við verðskrá ársins 2005 um 50 milljónir króna.
Heildareignir 31. desember 2006 voru 6.066 milljónir króna en voru 4.552 milljónir króna 31. desember 2005. Eigið fé 31. desember 2006 var 2.223 milljónir króna en var 1.624 milljónir í 31. desember 2005. Langtímaskuldir 31. desember 2006 voru 2.585 milljónir króna en voru 1.960 milljónir króna 31. desember 2005. Eiginfjárhlutfall var 36,6% í lok ársins 2006 en var 35,7% í lok 2005. Horfur á árinu 2007 eru góðar. Umsvif munu áfram verða veruleg og fjárfestingar miklar. Stærsta einstaka verkefnið er bygging Reykjaveitu sem mun fjölga viðskiptavinum fyrirtækisins umtalsvert. Jafnframt er sýnilegt að viðskiptavinum mun fjölga annars staðar á veitusvæðinu einkum á Akureyri. Ásgeir Magnússon hefur tekið við formennsku í stjórn Norðurorku en Bjarni Jónasson, fráfarandi formaður, er varaformaður. Aðrir í stjórn eru Kristín Sigfúsdóttir ritari, Anna Þóra Baldursdóttir og Hákon Hákonarson meðstjórnendur.