30. október, 2007 - 18:59
Fréttir
Skipulagsnefnd Akureyrarbæjar leggur til við bæjarstjórn að niðurrif á Hafnarstræti 98, gamla Hótel Akureyri, verði samþykkt þar sem af friðun hússins hefur enn ekki orðið. Húsafriðunarnefnd ríkisins hefur óskað eftir því við menntamálaráðherra að húsið verði friðað en ráðherra hefur enn ekki tekið afstöðu til málsins. Ekki eru allir á eitt sáttir um hvað gera eigi við húsið en eigendur þess keyptu það í þeim tilgangi að rífa það og byggja nýtt hús á lóðinni. Eins og fram kom í Vikudegi nýlega höfðu eigendur hússins sent greinargerð til menntamálaráðherra og Húsafriðunarnefndar og biðu eftir svari. Vignir Þormóðsson, einn fjórmenninganna sem standa að Hafnarstræti 98 ehf. sagði að félagið hefði þegar hafið framkvæmdir við að reisa nýtt hús lóðinni hefði Húsafriðunarnefnd ríkisins ekki komið óvænt að málinu á síðustu stigum undirbúningsins. Þrátt fyrir að áform um að rífa húsið Hafnarstræti 98 sem hýsti gamla Hótel Akureyri og byggja nýtt hús á lóðinni hafi haft langan aðdraganda og frá því sagt í fjölmiðlum kom engin athugasemd fram við þau áform fyrr en verklegar framkvæmdir voru um það bil að hefjast. Lagði Húsafriðunarnefnd þá til að húsið á lóðinni yrði friðað og við því ekki hróflað.
Bæjarstjórn Akureyrar á eftir að taka fyrir tilmæli skipulagsnefndar fyrir á fundi sínum á næstunni og hafi menntamálaráðherra ekki tekið afstöðu í málinu fyrir þann tíma er fátt sem kemur í veg fyrir að áform eigenda þess gangi eftir, þ.e. að rífa húsið.