Hafa safnað 3 milljónum fyrir verslun í Hrísey
Tekist hefur að safna þeirri upphæð sem til þarf til að stofna hlutafélag um verslun í Hrísey eða þremur milljónum króna. Eins og Vikudagur hefur greint frá var hugmyndin að allir geti gerst hlutahafar; íbúar, sumarhúsaeigendur og aðrir velunnarar eyjunnar.
Þetta er gert til þess að opna verslun á eynni á nýjan leik en engin verslun er á staðnum eftir að Júllabúð lokaði í byrjun mars sl.
Ákveðið hefur verið að halda stofnfund laugardaginn 9. maí. Fram kemur á heimasíðu Hríseyinga að opið verður áfram fyrir skráningu á hlutafé til 5. maí.
Þótt takmarkinu sé náð sem lagt var upp með finnst okkur full ástæða til að gefa fleirum tækifæri til að vera með. Það mun aðeins styrkja grunninn enn frekar, segir á vef Hríseyinga.
-þev