Hafa kært breytingu á miðbæjarskipulagi Akureyrar

Fimm aðilar, SÁÁ, félagið Tryggingaréttur og íbúar í Hofsbót 4 auk tveggja eigenda íbúða við Strandgötu 3 hafa kært þá ákvörðun Akureyrarbæjar að breyta skipulagi í miðbæ Akureyrar til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Akureyrarbær breytti skipulaginu í maí síðastliðnum. Kæran var lögð fram í ágúst, bærinn hefur svarað og kærendur hafa einnig gert athugasemdir við svör bæjarins. Reiturinn sem um er að ræða afmarkast af Glerárgötu, Kaupvangsstræti, Skipagötu, Hofsbót og Strandgötu.

Bjarni

Bjarni Sigurðsson eigandi efstu hæðar hússins við Hofsbót 4 segir að kærendur geri fyrst og fremst alvarlegar athugasemdir við þann mikla fjölda íbúa sem fyrirhugað er að bæta við á reitnum. „Þetta er verulega mikil þétting byggðar á litlum reit, í kjölfarið fækkar bílastæðum svakalega og það er ljóst að þessi skipulagsbreyting hefur afgerandi áhrif á alla bæjarbúa sem sækja þjónustu í miðbæinn og þá starfsemi sem er í Hofsbót/Skipagötu/Strandgötu/Hofi, en það hefur aldrei verið gerð greining á bílastæðaþörf fyrir miðbæinn“ segir Bjarni.

Auk fækkunar bílastæða úr 191 líkt og nú er í 15 stæði nefnir hann skuggavarp, skert útsýni, aukinn íbúafjölda með meiri umferð og gríðarlega ásókn í þau sárafáu bílastæði sem verða á svæðinu. „Allt þetta og það rask sem framkvæmdir hafa í för með sér eru til þess fallin að rýra gæði og verðmæti eigna á svæðinu,“ segir Bjarni.

Eigendur húseigna í miðbæ kostuðu almenn bílastæði

Fyrir um 30 árum voru fasteignaeigendur í miðbænum krafðir um að greiða fyrir nokkur hundruð bílastæði í bílastæðasjóð, að sögn Bjarna. Hávær mótmæli hefðu ekki borið árangur og niðurstaðan orðið sú að Akureyrarbær hefði verið ósveiganlegur. Þannig hefðu eigendur húsnæðis í Hofsbót 4 þurft að greiða fyrir 18 almenn bílastæði þar sem aðeins hefði verið hægt að koma 6 stæðum fyrir við húsið. Almenna krafan var eitt stæði fyrir 50 fermetra húsnæði og allt í allt því 24 stæði fyrir húsið við Hofsbót. Stærri byggingar þurftu að greiða fyrir fleiri bílastæði, þannig hefði til að mynda eigendur Amaró þurft að greiða fyrir 80 bílastæði svo dæmi sé tekið.

„Við eigum bágt með að sjá hvernig 15 bílastæði eiga að þjóna þessu svæði eftir að íbúum fjölgar umtalsvert. Til stendur að byggja hús á reit við Hofsbót 2 þar sem verður fjöldi íbúa og engin bílakjallari. Þessi bílastæði eiga líka að nýtast fyrir almenna umferð í miðbæinn. Þau munu aldrei anna því hlutverki. Þá er líka súrt í broti fyrir þá eigendur sem tóku þátt í gerð almennra bílastæða að hafa alls ekki vís stæði við heimili sín og starfsstöð, það gleymist líka hjá bæjarfulltrúum að bílastæðin við Hofsbót voru tekin inn í bílastæðaþörf Hofs en Hof uppfyllir ekki sína bílastæðaþörf“ segir Bjarni.

Auk athugasemda við bílastæðamál benda kærendur á að breyting á skipulagi fyrir miðbæinn sé ólögmæt og í ósamræmi við stefnu aðalskipulags Akureyrarbæjar. Þannig sé t.d. gert ráð fyrir 5 hæða byggingu á svæðinu sem sé of hátt og eins o sé ekki samræmi í byggingum sem engan vegin falli inn í götumyndina. Bílastæði sem á að gera fjær miðbænum gangi líka gegn stefnu aðalskipulags.

Svarað seint og illa og stundum alls ekki

„Við gerðum athugasemdir við að ekki sé gert nýtt mat á áhrifum hins nýja skipulags og eins þykir okkur verulega hafa skort á kynningu og samráð þegar þetta ferli var í gangi. Spurningum sem við sendum inn til Akureyrarbæjar var svarað seint og illa og stundum alls ekki, þar má til dæmis nefna spurningu sem við lögðum fyrir bæjarfulltrúa um hvaða götur tilheyra miðbæ Akureyrar. Þau hafa ekki enn getað svarað því sem er mjög sérstakt þar sem þau fara frjálslega með staðreyndir um fjölda bílastæða í miðbænum. Þetta gerist að hluta til í miðjum faraldri og viðtalstímar bæjarfulltrúar voru felldir niður þannig að við náðum ekki að koma sjónarmiðum okkar á framfæri.  Kynningarfundur á facebook var algjör brandari þar sem við gátum ekki átt eðlileg orðasamskipti, það var einungis leyft að setja inn spurningar í athugasemdir,“ segir Bjarni.

Veltir hæfi formannsins fyrir sér

Hann nefnir einnig að það sé einsdæmi að þegar kynning fari fram sé bílakjallari sýndur undir öllum nýbyggingum og að bæjarbúar hafi almennt haldið  eftir þá kynningu að um væri að ræða bílastæði fyrir almenning. „Það er ekki þannig, þetta eru einungs bílastæði fyrir íbúðir og starfsmenn í þessum húsum. Annan eins blekkingarleik hef ég ekki séð lengi,“ segir Bjarni. Hann segir að ekki sé heldur annað hægt en að velta hæfi formanns skipulagsráðs fyrir sér, Þórhalls Jónssonar sem reki fyrirtæki í miðbænum og sé formaður Miðbæjarsamtaka. „Hann fer gegn aðalskipulagi, en þar segir m.a. að byrja eigi að byggja sunnanmegin á bílastæðinu, fyrir framan hans fyrirtæki, en svo er byrjað norðanmegin,“ segir Bjarni.

/MÞÞ


Athugasemdir

Nýjast