Hafa áhyggjur af hægri fjölgun íbúa

Bæjarbúum á Akureyri fjölgar hægar en gert er ráð fyrir. Mynd/Þröstur Ernir
Bæjarbúum á Akureyri fjölgar hægar en gert er ráð fyrir. Mynd/Þröstur Ernir

Bæjaryfirvöld á Akureyri hafa áhyggjur af hægri fjölgun íbúa í bænum. Í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2014, og undanfarinna ára, var gert ráð fyrir fjölgun um 200 manns. Íbúum fjölgaði hins vegar einungis um rúmlega 120 á milli áranna 2013 og 2014.

„Það er áhyggjuefni að fjölgunin er ekki eins og við höfum vonast eftir og gert ráð fyrir,“ segir Guðmundur Baldvin Guðmundsson formaður bæjarráðs Akureyrar. „Við gerðum ráð fyrir að íbúum myndi fjölga nokkuð meira en raun varð á árinu 2014. Þetta hefur vissulega áhrif á okkur og við erum ekki að fá þá hækkun á útsvarstekjum sem fylgir fjölgun íbúa."

Íbúaþróun undanfarinna ára hefur verið undir væntingum. „Það er alveg ljóst að við viljum sjá örari fjölgun á íbúum bæjarins og þurfum að bregðast við þessu,“ segir Guðmundur Baldvin

Samkvæmt íbúaskrá Akureyrar þann 25. apríl sl. eru skráðir íbúar 18.237.

Nánar er fjallað um málið í prentútgáfu Vikudags.

-þev

Nýjast