Hafa áhyggjur af framtíð flugvallarins
Bæjarstjórn Akureyrar lýsti yfir áhyggjum af framtíð Reykjavíkurflugvallar á bæjarstjórnarfundi í gær. Þrír bæjarfulltrúar sátu hjá við afgreiðslu málsins, þau Logi Einarsson og Sigríður Huld Jónsdóttir úr Samfylkingunni og Margrét Kristín Helgadóttir úr Bjartri framtíð. Óskað var eftir nafnakalli við afgreiðslu bókunarinnar. Þremeningarnir sátu hjá vegna síðustu setningarinnar í bókunni þar sem segir að "það komi ekki á óvart að Alþingi láti málið til sín taka, þegar sérhagsmunir ganga fyrir almannahagsmunum."
Í bókuninni segir: Í ljósi þeirra alvarlegu stöðu sem blasir við fari svo að Reykjavíkurborg leyfi byggingar á svokölluðu Hlíðarendasvæði án þess að tryggt sé að hægt verði að nýta NA/SV braut (neyðarbraut) flugvallarins. Bæjarstjórnin skorar á Reykjavíkurborg að endurskoða nú þegar samþykktir sínar um Hlíðarendasvæðið með það að markmiði að tryggt sé að byggðin og neyðarbrautin eigi samleið. Meirihluti borgarstjórnar hefur með samþykktum sínum á undanförnum mánuðum unnið að því að leggja Reykjavíkurflugvöll af á næstu árum.
Þetta er grafalvarlegt í ljósi þess að Rögnunefndin er enn að störfum og borgarstjórn Reykjavíkur er aðili að henni. Þetta er ekki síður alvarlegt þar sem Reykjavík er höfuðborg landsins þar sem flestar stofnanir landsins eru staðsettar sem eiga að þjóna landinu öllu. Hlutverk höfuðborgar er víðtækt og mikilvægt og það verða borgarfulltrúar í borgarstjórn allir að skilja og viðurkenna. Reykjavíkurflugvöllur er lífsnauðsynleg tenging landsbyggðanna við höfuðborg sína og því kemur það ekki á óvart að Alþingi láti málið til sín taka, þegar sérhagsmunir ganga fyrir almannahagsmunum."
Logi Már Einarsson óskaði eftir breytingartillögu þar sem síðasta setningin yrði felld út en henni var hafnaði.
Þremeningarnir sem sátu hjá lögðu fram aðra bókun sem birt er hér fyrir neðan:
"Bæjarstjórn Akureyrar lýsir þungum áhyggjum sínum af framtíð Reykjavíkurflugvallar í ljósi fyrirhugaðra framkvæmda á svæðinu. Bæjarstjórn hvetur Reykjavíkurborg til þess að fresta öllum samþykktum um áframhaldandi uppbyggingu á svæðinu, a.m.k þar til Rögnunefndin hefur lagt fram niðurstöður sínar og landsmönnum verið gefið nægt ráðrúm til þess að fjalla um þær. Reykjavík er miðstöð stjórnsýslu og mikilvægustu stofnana landsins. Íbúar hafa því mikla hagsmuni af því að eiga sem greiðasta leið að henni. Þá er hún er jafnframt höfuðborg Íslands og hefur sem slík víðtækum skyldum að gegna gagnvart landsmönnum öllum."