Hættuleg gatnamót fá ný ljós

Gatnamótin umtöluðu. Mynd/Þröstur Ernir
Gatnamótin umtöluðu. Mynd/Þröstur Ernir

Stefnt er á að endurnýja umferðarljósin við gatnamót Glerárgötu og Tryggvabrautar á Akureyri á mánudaginn kemur, þann 17. nóvember, og er áætlað að slökkva á umferðarljósunum um kl. 9:30 um morguninn. Eins og Vikudagur hefur fjallað um eru umferðarljósin úrelt og barns síns tíma og þykja beinlínis hættuleg umferðinni. Endurnýjunin felst m.a. í því að beygjuörvarnar verða fjarlægðar.

Fram kemur á vef Akureyrarbæjar að hraði um gatnamótin verður lækkaður niður í 30 km/klst meðan á vinnu stendur. Vegfarendur eru hvattir til að sýna ítrustu várkárni þennan dag og gæta þess að virða biðskyldumerkingar sem eru á Borgarbraut og Tryggvabraut. Ef vel gengur verða umferðarljósin ræst að nýju samdægurs.

Samhliða breytingunni þarf að breyta forritum í stjórnskápum annarra umferðarljósa við Glerárgötuna, þ.e.a.s. við Þórunnarstræti, Strandgötu og Kaupvangsstræti. Því þarf einnig að slökkva á þeim umferðarljósum í skamman tíma í senn.

Nýjast