Hæstiréttur snéri við dómi héraðsdóms í máli slökkviliðsmanns

Hæstiréttur hefur snúið við dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra, frá því í febrúar 2009, þar sem Akureyrarbær var dæmdur til að greiða Sigurði L. Sigurðssyni slökkviliðsmanni skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar. Héraðsdómur hafði dæmt bæinn til að greiða Sigurði, tæpar 3 milljónir króna í bætur, með dráttarvöxtum frá júní 2008 og 900.000 krónur í málskostnað.  

Sigurður hafði fengið stöðu hjá Slökkviliði Akureyrar í mars 2007 en þegar til kom fékk hann ekki stöðuna, þar sem yfirmenn slökkviliðsins töldu að hann væri hættur við. Hæstiréttur hafnaði því að Akureyrarbær hafi með ólögmætum hætti rift ráðningarsamningi við Sigurð og bakað sér þannig skaðabótaskyldu gagnvart honum. Akureyrarbær var því sýknaður af kröfu Sigurðar og málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti var felldur niður.

Akureyrarbær skaut málinu til Hæstaréttar í maí í fyrra og krafðist sýknu af kröfu Sigurðar en til vara að hún yrði lækkuð. Jafnframt krafðist bærinn málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Sigurður áfrýjaði héraðsdómi til Hæstaréttar fyrir sitt leyti í júní í fyrra og krafðist þess að bærinn yrði dæmdur til að greiða sér rúmar 4,6 milljónir króna með dráttarvöxtum frá júní 2008 til greiðsludags og málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krafðist Sigurður staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Dóminn má finna á slóðinni: http://www.haestirettur.is/domar?nr=6435

Nýjast