„NorðanGarri snýst um það í raun og veru að gefa grunnskólakrökkum á Norðurlandi sama möguleika og krakkarnir hafa í Reykjavík með hæfileikakeppninni Skrekkur sem haldinn er ár hvert og að þau fái tækifæri til þess að búa til eitthvað sviðsverk sem þau skapa og geta þar með sýnt. Atriði hvers skóla getur verið mjög mismunandi og áherslur ólíkar, hvort sem það er tónlist, dans, texti eða annað og verkin lýsa oft styrkleika hvers skóla fyrir sig," segir Vigdís. Hún segir mikla þörf vera fyrir keppni sem þessa hér norðan heiða. „Þetta er gott tækifæri fyrir nemendur grunnskólana að sýna hvað þau eru flott og frábær. Þetta ætti líka að virka hvetjandi fyrir bæði krakkana að nýta sér það sem er í boði í þeirra skóla og jafnframt því að vera hvetjandi fyrir skólana að auka fjölbreytni í listrænni kennslu," segir Vigdís.
Þema keppninnar í ár er; Við skiptum máli - börn og unglingar í nútímasamfélagi, og eru þátttakendur hvattir til að vera frumlegir og vinna sem mest með frumsamið efni.Verðlaun verða veitt fyrir frumlegasta verkið og áhrifamestu söguna. Einnig verða aukaverðlaun veitt fyrir bestu tónlistina, bestu búningana og bestu sviðsmyndina eða lýsinguna. Eitt verk verður svo valið sem besta verkið og koma þá allir fyrrgreindir flokkar inn við matið. Áhorfendur fá einnig að velja sitt uppáhalds atriði. Umsóknarfrestur er til 25. mars nk. og vill Vigdís hvetja nemendur grunnskólanna til þess að sýna frumkvæði í sínum skóla. „Þetta á helst að virka þannig að krakkarnir sjálfir vilji vera með og það er þeirra að biðja sinn skóla um að fá að vera með. Þetta er keppnin þeirra. Þau keppa fyrir hönd síns skóla en krafturinn verður að koma frá þeim."
Stefnt er að því að hafa keppnina að árlegum viðburði en það ræðst þó af því hvernig til tekst í vor. „Ef allt gengur vel og allir verða ánægðir og vilji verður til þess að halda áfram að þá er það stefnan. Að keppnin vaxi og dafni og verði að sama styrkleika og Skrekkur er fyrir unglinga í Reykjavík. Hugsanlega verður keppnin þá í framtíðinni haldin í Menningarhúsinu Hofi sem er rétta umgjörðin fyrir framtíðarlistamenn svæðisins," segir Vigdís Arna. Allir grunnskólar Norðurlands ættu nú þegar að hafa fengið sent umsóknareyðublað en hægt er að hafa samband og skrá sig til þátttöku í gegnum netfangið nordangarri@garrinn.net. Allar frekari upplýsingar um keppnina má sjá á http://www.garinn.net/ og á Snjáldurskinnu (fésbókinni).