H dagurinn 26. maí árið 1968
Frá því að hin svokallaða bílaöld hófst hér á Íslandi var ekið á vinstra helmingi vegarins og lengi fram eftir 20 öldinni voru fluttir inn bílar með stýrinu hægra megin. Ísland var hins vegar í miklum minnihluta þjóða þar sem ekið var á vinstri vegarhelmingi. Í byrjun sjötta áratugsins var farið að tala um það af fullri alvöru að færa sig yfir á hægri vegarhelming til að vera í takt við flestar aðrar þjóðir. Íslensk stjórnvöld voru frekar tortryggin á að þetta væri hægt þar sem landinn væri orðin vinstri helmingnum vanur, og einnig af því að mikill kostnaður myndi fylgja þessu.
Svíar ákváðu um miðjan sjötta áratuginn að færa umferð yfir á hægri vegarhelming, eða í mai 1967. Skyldi undirbúningur hefjast strax og þar voru kosnar nefndir til að vinna að þessu verkefni. Svíar höfðu búið við það að þurfa að færa sig yfir á hægri vegarhelming þegar þeir óku yfir landamærin til Noregs og Finnlands og þótt landamæri þeirra liggi ekki að Danmörku voru tíðar ferjusiglingar þangað og sumar mjög stuttar og því margir Svíar sem þangað fóru. Einnig hafði þetta áhrif á þá sem hugðu á ferðir til Svíþjóðar því akstur á vinstri vegarhelmingi hræddi þá frá ferðum þangað og hafði veruleg áhrif á ferðaþjónustuna.
Eftir þessa ákvörðun Svía fannst mörgum að leiðin væri rudd fyrir Íslendinga að gera slíkt hið sama og skömmu síðar ákvað Alþingi að Íslendingar tækju upp hægri umferð 26. maí 1968. Áður hafði ríkisstjórnin fengið valinkunna menn til að semja frumvarp að lögum um þessa breytingu og þeir sem frumvarpið sömdu voru, Sigurjón Sigurðsson lögreglustjóri í Reykjavík, Benedikt Sigurjónsson hæstaréttardómari, Ólafur W. Stefánsson stjórnarráðsfulltrúi, Arinbjörn Kolbeinsson læknir og formaður FÍB, Sigurður Jóhannsson vegamálastjóri, Eiríkur Ásgeirsson formaður skipulagsnefndar fólksflutninga og Theodór B. Lyngdal prófessor. Þessir menn mættu á fund allsherjarnefndar Alþingis þann 16. mars 1966 og þar veittu þeir nefndarmönnum greinargóðar upplýsingar um málið og svöruðu fyrirspurnum. Í rökstuðningu fyrir málinu segir m.a.
Bættar og auknar samgöngur landa á milli hljóta að hafa í för með sér samræmingu á umferðarreglum og hefur þetta leitt til þess að hægri handar umferð er orðin megin regla í umferð á landi. Af Evrópuþjóðum hafa Austurríki, Tékkóslóvakía, Ungverjaland og Portugal horfið frá vinstri handar umferð til hægri handar umferðar á síðustu áratugum og á næsta ári bætist Svíþjóð í þennan hóp. Verða þá bara Bretland, Írland, Ísland, Kýpur og Malta einu löndin í Evrópu með vinstri handar umferð.
Rekinn var mikill áróður
Þá kom það einnig fram að alþjóðareglur á sjó og í lofti miðist við hægri handar umferð og það ætti því að auka en á öryggið að þær reglur gildi einnig á landi. Andstæðingar þessarar breytingar héldu því fram að slysatíðni mundi aukast mjög a.m.k. fyrstu árin en reynsla þeirra sem þegar höfðu breitt frá vinstri til hægri sýndi að svo var ekki. Fyrir lágu skýrslur frá áðurnefndum þjóðum sem þetta höfðu gert, sem sýndu að færslan var mun auðveldari en talið var fyrirfram. Allstaðar hafði þó verið rekinn mikill áróður fyrir breytingunni og sífellt hamrað á hægri umferð. Þá auðveldaði það okkur breytinguna að lang flestar bifreiðar á Íslandi voru með stýrið vinstra megin, þ.e.a.s. eins og ætlast er til í hægri umferð. Þá kom fram að breyta þurfti stefnu framljósa á bílum og var talið að það kostaði um það bil 350 kr. á bíl.
Þetta var ekki í fyrsta sinn sem við Íslendingar ræddum þessi mál. Árið 1940 var fyrst rætt um það á Alþingi að færa sig yfir á hægri vegarhelming en vegna kosnaðar var horfið frá því. Þá var talið að breytingin kostaði 50 þúsund. Árið 1956 kom þetta aftur til tals en kostnaðurinn, 5,6 miljónir, þótti of mikill. Árið 1968 var talið að þetta kostaði 50 miljónir.
Nefndir um allt land
Nú voru skipaðar margar nefndir um allt land en þær áttu hver í sínu sveitarafélagi að leiða framkvæmdina í samvinnu við bæjar- og sveitarstjórnir. Hér á Akureyri hvíldi þessi breyting mest á herðum Gísla Ólafssonar þáverandi yfirlögreguþjóns og Stefáns Stefánssonar þáverandi bæjarverkfræðings en þeir fóru til Svíþjóðar árið 1967 og fylgdust með breytingunni hjá þeim. Auk þeirra voru í nefndinni Þóroddur Jóhannsson þáverandi ökukennari og Jónas Jónsson frá Brekknakoti sem kom frá Bindindisfélagi ökumanna. Allir eru þessir heiðursmenn látnir. Þann 20. mai 1968 var haldinn borgarafundur í Borgarbíó og þar var húsfyllir. Þar flutti Bjarni Einarsson bæjarstjóri ávarp og Valgarð Briem formaður undirbúningsnendar á landsvísu, flutti ræðu. Þóroddur Jóhannsson flutti ávarp og sýndi skuggamyndir um breytinguna. Fundarstóri var Gísli Ólafsson. Á eftir voru fyrispurnir og líflegar umræður. Þetta mál var það vel undirbúið og kynnt að flest allir voru sammála um þessar breytingar en margir voru ragir og sumir sögðust ætla að hætta að keyra.
Eyjafjarðarsýslu var skipt í fjögur svæði til að undirbúa breytinguna. Svæði 1 var Akureyri. Svæði 2 Dalvík, Svarfaðadalur og Árskógsströnd inn að Fagraskógi. Svæði 3 sunnan við Fagraskóg og inn Hörgárdal og Öxnadal, og síðan Kræklingahlíð. Svæði 4 var Eyjafjörður austan og sunnan Akureyrar.
Á þessum svæðum voru skipaðar sérstakar aðgerðarstjórnir sem þá voru í nánu samstarfi við aðalnefndina á Akureyri.
Rötuðu ekki heim til sín
Fyrir Akureyri var gefið út sérstakt umferðarkort, en það var gert vegna þess að einstefna var sett á flestar íbúðargötur á eyrinni sem áður höfðu haft umferð í báðar áttir þrátt fyrir að vera þröngar. Margir íbúar á eyrinni hringdu á H-daginn til okkar á lögreglustöðina, sem þá hvorki rötuðu að heiman eða heim og vildu fá upplýsingar um breytta umferð. Breytingin var það róttæk að nauðsynlegt reyndist síðar að liðka aðeins til því upp komu nokkrir gallar á framkvæmdinni eins og hún var uppsett fyrir H daginn. Rúnturinn svokallaði á Akureyri var mjög frægur meðal ökumanna en í vinstri umferðinni var ekið suður Hafnarstræti og norður Skipagötu. Stöðumælar voru við austurhlið Hafnarstrætis eða til vinstri miðað við vinstri umferð og einnig vestan megin nyrst í Skipagötunni. Til að spara það að færa stöðumælana var ákveðið að snúa rúntinum við og aka norður Hafnarstræti og suður Skipagötu eins og gert er í dag en þá pössuðu stöðumælarnir við þá umferð.
Margir vildu hjálpa
Mikill undirbúningur var hjá lögreglumönnum og dagana kring um breytinguna unnu flestir tvöfaldan vinnudag. Ég hafði það verkefni sérstaklega að sjá um og skipuleggja störf umferðarvarða. Það var fólk sem var á ferðinni við gatnamót, gangbrautir o.fl. og leiðbeindi fólki. Umferðarverðirnir vou sjálfboðaliðar frá skátum, lionsklúbbum, Rauðakrossi, björgunarsveitum, kennarar o.fl. Við vorum ekki fluttir í lögreglustöðina við Þórunnarstræti þegar breytingin varð en umferðarverðirnir höfðu þar aðsetur en ekkert pláss var fyrir þá á lögreglustöðinni við Smáragötu því þeir voru yfirleitt fjölmennari en lögreglan. Þeir voru að störfum frá kl. 09.00 á morgnana og fram til 22.00 á kvöldin. Mitt starf var að sjá til þess að þeir væru á vakt á þeim stöðum sem við höfðum áður ákveðið að gæsla skyldi vera en þó á mismunandi tímum sólarhrings. Búnar voru til á landsvísu sérstakar hvítar ermar með H merkinu á og það fengu allir umferðarverðirnir til afnota þegar þeir voru að störfum.
Margir vildu hjálpa til og hafði ég ávallt nægan mannskap. Enginn sími var kominn á nýju lögreglustöðina og engin fjarskipti milli nýju og gömlu lögreglustöðvarinnar við Smáragötu þar sem lögreglumennirnir héldu sig. Til þess að við gætum verið í sambandi við lögregluna fengum við lánaðan Vibon trukk hjá Flugbjörgunarsveitinni sem lagt var undir opinn glugga á stöðinni við Þórunnarstræti, en bíllinn var með gamallri símatalstöð eins og var í lögreglubílnum og var því hægt að kalla í trukkinn frá gömlu lögreglustöðinni. Með því að hafa rúður hans niðurskrúfaðar og glugga á stöðinni opinn heyrðist inn ef kallað var í bílinn og þá var hægt að fara út í bílinn og svara.
Það var mikið að gera hjá starfsmönnum Akureyrarbæjar svo og starfsmönnum annarra sveitarfélaga sýslunnar við þessa breytingu. Færa þurfti öll umferðarmerki yfir á hinn vegarhelminginn og breyta þurfti yfirborðs merkingum o.fl. Fyrir H daginn voru þeir búnir að steypa niður allar undirstöður fyrir öll merki sem setja þurfti upp þannig að nóttina fyrir breytingu þurftu þeir aðeins að færa stengurnar með merkjunum á. Þeir voru búnir að undirbúa þetta vel og m.a. að yfirfara alla skrúfbolta þannig að auðvelt var að skrúfa merkin af og setja þau upp á nýjum stað.
Bókstaf þann sem heitir H hafa skalt í minni
Umferðarbreytingin fór fram á sunnudagsmorgni 26. mai kl. 06.00. Algjört umferðarbann var frá kl. 03.00 til kl. 07.00. Þó höfðu bæjarstarfsmenn, lögreglumenn, slökkviliðsmenn, læknar, björgunarsveitarmenn, leigubílstjórar og ef til vill fleiri, undanþágu frá þessu banni en aðeins ef þeir voru að störfum. Því til sönnunar höfðu þeir sérstakt merki í framrúðu bíls síns sem Gísli Ólafsson úthlutaði þeim. Kl. 05.45 áttu bæjarstarfsmenn að vera búnir að færa umferðarmerki og merkja götur og kl. 05.50 áttu allir sem voru á ferðinni að stöðva hvar sem þeir voru. Kl. 06.00 áttu síðan allir að færa sig yfir á hægri vegarhelming og eftir það var ekki aftur snúið. Þetta átti aðeins við þá sem voru með undanþágu til aksturs en kl. 07.00 var umferðarbanninu aflétt og allir hvattir til að fara út á göturnar og aka.
Hér á Akureyri voru það þeir Gísli Ólafsson þáverandi yfirlögregluþjónn á sínum græna Dodge Dart 1966 A 1060 og Stefán Stefánsson þáverandi bæjarverkfræðingur á sínum hvíta Taunus 1966 A 1650, sem formlega óku fyrstir yfir á hægri vegarhelming á Glerárgötunni og var það sérstaklega myndað. Dansleikir laugardagsins voru aðeins til kl. 02.00 svo allir gætu verið komnir tímanlega heim og tilbúnir fyrir sunnudagsbíltúrinn og þá á hægri vegarhelmingi. Það hafði verið danslagakeppni um besta lagið og textann nokkru fyrir breytinguna og það var hljómsveit í Reykjavík sem sigraði í þessari keppni, ef ég man rétt, en Ingimar Eydal var fljótur að taka þetta lag á sína dagskrá og hljómaði það í Sjallanum margar vikur fyrir breytinguna. Ljóðið byrjaði þannig. Bókstaf þann sem heitir há, hafa skaltu í minni. Einnig var mikill áróður í útvarpinu og auglýsingar hengdar upp í búðargluggum, opinberum stöðum og víðar.
Heilum til til baka, best er heim að aka
Almennur umferðarhraði á vegum fyrstu dagana eftir breytinguna var 50 km utanbæjar en 35 km innanbæjar. Fljótlega hækkaði þó hraðinn á þjóðvegunum í 60 km, en fyrir breytingu hafði hann verið 70 km. Ein undantekning var þó á umferðarhraðanum á H daginn. Á Keflavíkurveginum, sem var þá okkar eini almennilegi vegur, var hraðinn aðeins settur niður í 60 km en eins og á hinum vegunum hækkaði hann síðar í 70 eins og hann var áður. Það verður að segja að þessi breyting gekk vel. Slysum og óhöppum í umferðinni snarfækkaði fyrsta árið. Það var talið vera vegna þess að allir voru svolítið óöruggir og óku þar að leiðandi mjög gætilega. Á fyrsta degi breytingarinnar tókum við einn mann fyrir hraðann og ógætilegan akstur en sá maður ók um vegi Eyjafjarðarsveitar. Það voru heimamenn þar sem létu okkur vita af akstri bílsins. Ég man eftir að ökumaðurinn gaf okkur þá skýringu á akstrinum að hann ætlaði að æfa sig á fáförnum vegum sveitarinnar.
Bæjarbúar svo og allir landsmenn voru mjög fljótir að tileinka sér að aka á hægri vegarhelmingi og þegar ár var liðið frá breytingunni held ég að flestir hafi verið búnir að gleyma því að hafa ekið áður fyrr á vinstri vegarhelmingi. Hér í upphafi minntist ég á áróðursljóðið sem Ingimar Eydal spilaði svo vel og oft í Sjallanum sem byrjaði svo Bókstaf þann sem heitir há, hafa skalt í minni en það endaði svo heilum bíl til baka, best er heim að aka og læt ég það vera lokaorð í þessari upprifjun minni á Hægri breytingunni svokallaðri 26. mai 1968 á Akureyri.
Ólafur Ásgeirsson aðstoðaryfirlögregluþjónn - emerítus Akureyri.
P.s. Þrátt fyrir það að við höfum ekið á hægri vegarhelmingi hér í bæ frá 1968 og vikið til hægri eins og vera ber, settu forsvarsmenn Bónus í Naustahverfi alveg óvænt upp vinstri umferð á a.m.k. hluta bílastæðis síns við búðina. Það er ótrúlegt að svo skuli vera og þar sem fólk mótmælir nánast öllu í dag hefur engin sagt neitt opinberlega um þetta.