Gunnar og Njáll Trausti oftast strikaðir út

Flestir strikuðu yfir nafn Gunnars Gíslasonar.
Flestir strikuðu yfir nafn Gunnars Gíslasonar.

Flestar útstrikanir í sveitarstjórnarkosningunum á Akureyri voru hjá Sjálfstæðisflokknum eða samtals 153. Fæstar útstrikanir voru hins vegar á lista Bjartrar framtíðar eða alls 14. Flestir strikuðu út nafn Gunnars Gíslasonar oddvita Sjálfstæðisflokksins eða 74 og 33 strikuðu út Njál Trausta Friðbertsson, sem skipaði þriðja sætið á lista flokksins. Eva Hrund Einarsdóttir, sem skipaði annað sætið á listanum, var fjórtán sinnum strikuð út.

Á lista Samfylkingarinnar voru alls 66 útstrikanir; flestar hjá Sigríði Huld Jónsdóttur sem skipaði annað sæti listans og Eiði Arnari Pálmasyni sem skipaði fimmta sætið eða ellefu útstrikanir á hvort. Þá strikuðu átta yfir nafn Loga Má Einarssonar oddvita flokksins.

Hjá L-listanum voru 42 útstrikanir. Flestir strikuðu yfir nafn Tryggva Gunnarssonar eða tíu, en Tryggvi skipaði fjórða sætið á listanum. Tveir strikuðu út Matthías Rögnvaldsson oddvita flokksins.

Hjá Vinstri grænum voru 38 útstrikanir. Flestir strikuðu yfir Sóley Björk Stefánsdóttur oddvita flokksins eða fjórtán og sjö strikuðu yfir Edward H. Huijbens sem skipaði annað sætið.

Hjá Framsókn voru 27 útstrikanir. Flestir strikuðu yfir nafn Ingibjargar Isaksen eða níu en fjórir strikuðu yfir Guðmund Baldvin Guðmundsson oddvita flokksins.

Hjá Dögun voru 16 útstrikanir þar sem flestir strikuðu yfir nafn Torfa Þórarinssonar eða þrír. Einn strikaði yfir Hlín Bolladóttur oddvita flokksins.

Hjá Bjartri framtíð var strikað ellefu sinnum yfir Preben Jón Pétursson og þrír strikuðu yfir nafn Margrétar Kristínar Helgadóttur, oddvita flokksins. 

throstur@vikudagur.is

Nýjast