Guðmundur gefur kost á sér í 3.-6. sæti hjá VG á Akureyri

Guðmundur Helgi Helgason hefur ákveðið að gefa kost á sér í 3.-6. sæti í forvali Vinstri-grænna á Akureyri fyrir bæjarstjórnarkosningar í vor. Guðmundur Helgi er 45 ára matreiðslumeistari  og starfar sem hótelstjóri og matreiðslumaður  á Hótel Núpi í Dýrafirði sem er sumarhótel og hann á og rekur ásamt bróður sínum. Þá er hann hálfnaður með B.A. nám við Ferðamáladeild Háskólans á Hólum.  

Guðmundur er giftur Vordísi Baldursdóttur og eiga þau þrjú börn Jónínu Sæunni 19 ára, Baldur Má 18 ára og Helgu Guðrúnu 6 ára. "Ég hef verið virkur félagi í Akureyrarfélagi Vinstri-grænna síðastliðinn 4 ár  var varamaður í stjórn þess 2006-07 og í stjórn þess 2007-09 og á því kjörtímabili sem er að ljúka hef ég verið varamaður í hafnarstjórn Akureyrar. Á þeim rétt rúmlega tuttugu árum sem ég hef búið á Akureyri hef ég starfað sem matreiðslumaður  hjá  Friðriki V, Lostæti ehf., Karólínu restaurant, Dvalarheimilinu Hlíð, Hótel Eddu á Akureyri og Hótel Stefaníu, þá hef ég starfað ýmist  sem matreiðslumaður eða háseti bæði á skipum Samherja hf. og Brims hf.

Í félagsmálum hefur áhugi minn beinst að því sem ég eða börnin mín  hafa verið að gera hverju sinni. Ég hef setið í stjórnum foreldrafélaga Brekkuskóla og  leikskólans Naustatjarnar, verið í stjórn Sundfélagsins Óðins, var virkur félagi í JC Súlum og JC Akureyri  í gamla daga. Í dag vegna fyrirtækis míns er ég virkur meðlimur í Ferðaþjónustu Bænda ásamt því að sinna nefndarstörfum fyrir þá, er einnig virkur meðlimur í Beint frá býli. Sit einnig í stjórnum Veislu að Vestan sem er félag um staðbundinn mat á Vestfjörðum og Veraldavina Vestfjarða sem er angi af alþjóðlegum sjálboðaliðasamtökum.

Áherslumál mín fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar eru helst þau að taka þátt í þeirri varnarbaráttu sem framundan er  í störfum bæjarstjórnar vegna þess ástands sem er í fjármálum þjóðarinnar.  Finna þarf leiðir til að verja það þjónustustig bæjarins er lítur að fjölskyldum hans, standa vörð um það skólastarf sem fram fer í bænum og stuðla að og taka þátt í uppgangi ferðaþjónustu á Akureyri sem ég tel vera helsta vaxtarbrodd bæjarfélagsins og landsins alls," segir í fréttatilkynningu.

Nýjast