"Ég hef alveg frá því meiri hluti þingmanna Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs studdi aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu ekki verið ánægður með afstöðu flokksins til ýmissa mála sem og þá starfshætti sem tíðkast innan flokksins. Það sem endanlega rekur mig til þessa, er sá gjörningur að handvirkt hefur verið stillt upp einstaklingi í fjórða sæti á framboðslista flokksins á Akureyri fyrir sveitarstjórnarkosningarnar sem ekki tók þátt í forvali flokksins (fyrstu sex sætin voru kosin með bindandi kosningu). Mér hugnast ekki slík vinnubrögð. Sérstaklega ekki nú á tímum þar sem krafa um aukið lýðræði er réttilega mjög hávær. Ég hef hingað til reynt að halda skoðunum mínum á lofti sem samræmast þeim vinstri hugsjónum sem Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur gefið sig út fyrir að standa fyrir. Ég hef getað réttlætt veru mína í flokknum með því að sannfæra sjálfan mig um að ég gæti með veru minni haft áhrif til betri vinnubragða og róttækari vinstri stefnu án þess að vera beinn þátttakandi í þeim gjörningum þar sem flokkurinn hefur farið út af sporinu. Ef ég hefði tekið þátt í að samþykkja og vinna við lista sem ég tel settan saman á ólýðræðislegan hátt væri ég orðinn beinn þátttakandi í því sem ég hef verið að gagnrýna. Þar sem nánast allt annað forystufólk flokksins á Akureyri sá ekkert athugavert við þessa framkvæmd sé ég enga aðra leið en að segja af mér og hætta í flokknum," segir Guðbergur Egill ennfremur í yfirlýsingu sinni.
Edward Huijbens verður í forsvari fyrir félagið en haldinn verður aukaaðalfundur með vorinu til að kjósa nýja stjórn.