Grótta lagði Akureyri að velli

Grótta lagði Akureyri að velli með þriggja marka mun, 29:26, er liðin áttust við í dag á Seltjarnarnesi í N1- deild karla í handbolta. Heimamenn í Gróttu voru mun betri allan leikinn og leikurinn varð aldrei spennandi fyrr en rétt í lokin þegar norðanmenn náðu að minnka muninn í eitt mark.

Grótta kafsigldi Akureyri í upphafi leiks og þegar rétt um tíu mínútur voru liðnar af leiknum var staðan 7:1 fyrir Gróttu og þar var grunnurinn lagður að sigrinum. Staðan í hálfleik 15:9 fyrir heimamenn. Norðanmenn náðu að minnka muninn í eitt mark þegar skammt var til leiksloka en nær komust þeir ekki og Grótta landaði mikilvægum sigri í botnbaráttunni.

Þrátt fyrir tapið heldur Akureyri öðru sætinu í deildinni með 22 stig, en Grótta er komið í sjötta sætið með 10 stig.

Nýjast