Gróðursett í Vilhelmínulundi

Í tilefni þess að 25 ár eru liðin frá því konum fjölgaði umtalsvert í bæjarstjórn Akureyrar og fyrsta konan varð forseti bæjarstjórnar stendur samfélags- og mannréttindaráð Akureyrarbæjar ásamt konum sem voru virkar í Jafnréttishreyfingunni og Kvennaframboðinu, fyrir gróðursetningu 25 plantna í Vilhelmínulundi við Hamra í dag, þriðjudaginn 19. júní. Vilhelmínulundur er tileinkaður Vilhelmínu Lever á Akureyri sem fyrst kvenna á Íslandi kaus í sveitarstjórnarkosningum og það áður en íslenskar konur fengu kosningarétt. Dagskráin hefst við minningarskilti um Vilhelmínu við Hamra ofan Akureyrar kl. 17. Flutt verða stutt ávörp, settar niður plöntur og boðið upp á kaffi. Vilhelmínulundur er við göngustíginn sem liggur meðfram tjaldsvæðinu að Hömrum. Best er að leggja bílum við þjónustuhúsið og ganga eftir göngustígnum þar til komið er að skiltinu um Vilhelmínu. Í dag kvennréttindadaginn 19. júní, er jafnframt opið hús hjá Jafnréttisstofu að Borgum frá kl. 13-15.

Nýjast