Grímseyingar kalla eftir áframhaldandi stuðningi

„Áframhald á verkefninu myndi styrkja stöðu eyjarinnar enn frekar sem íbúasamfélags sem og ferðamann…
„Áframhald á verkefninu myndi styrkja stöðu eyjarinnar enn frekar sem íbúasamfélags sem og ferðamannastaðar,“ segir m.a. í bréf hverfisráðsins.

Íbúar Grímseyjar vilja fara þess að leit við Byggðastofnun og Akureyrarbæ að verkefninu Glæðum Grímsey verði framhaldið í a.m.k. eitt ár til viðbótar. Verkefnið Brothættar byggðir fór seinna af stað í Grímsey en áætlað var og var íbúaþing t.d. ekki haldið fyrr en í maí 2016.

Í bréfi frá hverfisráði Grímseyjar til Byggðastofnunar og Akureyrar segir að seinkun á byrjun verkefnisins og sú alvarlega staða sem nú er uppi í Grímsey séu nægar ástæður til þess að verkefninu sé framhaldið.

„Þrátt fyrir að verkefnið Glæðum Grímsey hafi því miður ekki náð að hafa mikil áhrif á íbúaþróunina í Grímsey þá eru íbúar samt sem áður glaðir með verkefnið og það sem með því hefur áunnist. Íbúaþingið var vel heppnað og þá sett fram skýr framtíðarsýn Grímseyinga og listuð upp markmið sem markvisst hefur verið unnið í að ná undanfarin ár. Grímseyingar telja áframhald verkefnisins mikilvægt, því að þrátt fyrir að það hafi ekki snúið íbúaþróun við enn sem komið er, skipti það miklu máli fyrir lífsgæði þeirra sem enn búa í eyjunni og möguleikann á fólksfjölgun og endurnýjun.

Aðal- og grunnatvinnuvegur Grímseyjar er sjávarútvegur og hann er forsenda fyrir byggð í eynni. Útgerðirnar í Grímsey eru smáar og er rekstur slíkra erfiður og á undanhaldi um allt land. Sérstaki byggðakvótinn sem fylgir verkefninu hefur stutt við og jafnvel verið forsenda fyrir útgerð og atvinnu í eyjunni. Verkefnið Glæðum Grímsey hefur gert íbúum kleift að koma á fót ýmsum fyrirtækjum og bæta þjónustu við heimamenn og gesti. Áframhald á verkefninu myndi styrkja stöðu eyjarinnar enn frekar sem íbúasamfélags sem og ferðamannastaðar,“ segir í bréf hverfisráðsins.

Málið var rætt á bæjarstjórn Akureyrar í vikunni og þar var tekið undir áskorun Grímseyinga.

„Bæjarstjórn Akureyrarbæjar tekur undir með íbúum í Grímsey og óskar eindregið eftir því við Byggðastofnun að verkefnið Brothættar byggðir verði framlengt,“ segir í bókun bæjarstjórnar.


Nýjast