Með nýjum umsóknum er átt við fólk sem hefur sótt um nám fyrir næstu önn en er ekki í skólanum nú. Sigríður segir að aukin ásókn sé í flestar brautir við skólann, jafnt verknám sem bóknám. Umsóknum á sjúkraliðabraut hefur t.d. fjölgað mikið, einnig sé stór hópur að læra málaraiðn og pípulagningar en þessar brautir eru ekki á boðstólnum nema að eftirspurn sé nægjanleg.
Skólinn getur ekki veitt öllum sem sækja um skólavist inngöngu. Fjöldi þeirra sem kemst inn ræðst mikið af því hversu margir núverandi nemendur halda áfram skólagöngu á vorönn og einnig skiptir öllu hversu mikið fjárhagslegt bogmagn skólinn hefur, að sögn Sigríðar. Bendir hún á í því sambandi að ekki sé búið að afgreiða fjárlögin fyrir árið 2009 og þess vegna ríki nokkur óvissa um þau mál.
Í haust voru 1350 nemendur við VMA og hafa afföllin verið afar lítil á önninni eða um það bil 100 talsins. Af þeim 265 umsóknum sem bárust skólanum eru um 130 eftir óafgreiddar, búið er að veita nokkrum inngöngu en einnig er búið að synja nokkrum, að sögn Sigríðar.
Hún sagði skólann hafa verið fullsetinn í haust og raunar sé hann búinn að sprengja utan af sér húsnæðið og þá sé kennarafjöldinn varla nægur til að sinna öllum þeim sem vilja komast að.