Greta Salóme og SinfoNord leiða saman hesta sína í sýningunni Frost

Á morgun, sunnuaginn 17.janúar, verður blásið til tónleikasýningar í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri þar sem Greta Salóme og SinfóníuhljómsveitNorðurlands leiða saman hesta sína. Sýningin nefnist Frost en þar mun Greta ásamt hrynsveit og Sinfóníuhljómsveitinni leika lög úr Disney-sýningu sinni, eigin lög og klassísk verk í popp og rokkbúningi. Í tilkynningu frá Menningarfélagi Akureyrar segir að á sýningunni munu allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi og sé sýningin ekki síður fyrir auga en eyra. Um 20 dansarar úr STEPS dansskólanum taka einnig þátt og er einnig mikið lagt upp úr glæsilegri grafík og ljósahönnun. Þá munu þrír kórar syngja með Gretu í völdum lögum, auk þess sem Magni Ásgeirsson söngvari kemur einnig við sögu. Alls verða því um 80 listamenn á sviðinu. Öllum 5 og 6 ára Akureyringum verður boðið að koma frítt á sýninguna klukkan 13:00 þann 17. janúar og er það liður í samfélagsverkefni MAk að kynna sinfóníska tónlist og leikhús fyrir ungmennum á Akureyri, en verkefnið er styrkt af Norðurorku.

 

Einróma lof gagnrýnenda

Sýningin Frost var unnin af Gretu Salóme og naut hún aðstoðar leikstjóra, hönnuða og dansara frá Disney. Sýningin hefur hlotið einróma lof fyrir fjölbreytni og skemmtanagildi þar sem fjölmargir tónlistarstílar skarast og áheyrendur sjá fjölmargar hliðar tónlistarkonunnar. „Á sýningunni fléttar Greta Salóme saman bakgrunni sínum sem klassískur fiðluleikari, tónskáld og söngkona og leikur tæknilega krefjandi verk en í nýjum útfærslum. Á sýningunni má heyra allt frá háklassískum verkum yfir í eldhröð lög með fiðlu og hrynsveit og töfrandi tónsmíðar þar sem Greta syngur. Einnig má heyra Disney-lög þar sem Greta Salóme syngur og spilar og ber þar hæst að nefna Frozen-svítuna. Þar blandast saman árstíðirnar eftir Vivaldi, lög úr Frozen kvikmyndinni og svo íslensk stef eftir Gretu. Á sýningunni í Hofi mun Greta Salóme leika efni af Disney-sýningunni en leggur líka áherslu á að taka verk þar sem popptónlist, rokktónlist og sinfónísk tónlist skarast. Markmið sýningarinnar er að þar sé eitthvað á boðstólnum fyrir alla og ekki munu bara tónlistarstílar skarast heldur einnig listform,“ segir í tilkynningu.

 

Nýjast