Grátbrosleg sænsk kómedía í Nýja bíó
KvikYndi í samstarfi við Bíó Paradís og Sambíóin Akureyri stendur fyrir sýningu á myndinni Turist í dag, fimmtudaginn 5. mars kl. 18:00. Í myndinni ræðst sænski leikstjórinn, Ruben Östlund, á rótgróin gildi feðraveldisins. Sænsk fjölskylda fer í skíðaferð til frönsku Alpanna þar sem sólin skín. Þegar þau setjast dag einn niður til að snæða hádegisverð snýr snófljóð lífi þeirra á hvolf. Ebba kallar á eiginmann sinn, Tomas, í örvæntingu sinni, og reynir að verja börn þeirra sem einnig sitja við borðhaldið, frá yfirvofandi hættu.
Tomas hleypur hinsvegar frá borðinu til að bjarga lífi sínu og skilur fjölskyldu sína eftir í örskamman tíma. Snjófljóðið nær ekki að veitingastaðnum, en afleiðingarnar af atvikinu hafa djúpstæða merkingu fyrir samband Tomas og Ebbu. Tomas reynir eftir bestu getu að endurheimta stöðu sína innan fjölskyldunnar sem verndari hennar.
Myndin er grátbrosleg kómedía um hlutverk karlmannsins í fjölskyldumynstri nútímans og ekki síst hversu rótgróin gildin geta verið. Miðaverð er 1000 krónur; myndin verður sýnd með íslenskum texta.