Bæjarstjórn Akureyrar og borgarstjórn Reykjavíkur hafa ákveðið að hefja undirbúning að samstarfi í velferðarmálum milli Grafarvogs og Akureyrar. Íbúafjöldi Akureyrar og Grafarvogs er nánast sá sami, nú um 18.000 íbúar. Íbúasamsetning er sambærileg m.t.t. aldurs og væntanlega einnig til annarra lýðfræðilegra og félagslegra þátta. Markmið samstarfsins er að Miðgarður, þjónustumiðstöð Reykjavíkurborgar í Grafarvogi, geti nýtt sér jákvæða reynslu Akureyrar, sem allt frá árinu 1997 hefur þróað samþætta velferðarþjónustu í nærsamfélagi fyrir alla bæjarbúa. Ennfremur að Akureyrarbær njóti góðs af frumkvöðlaverkefnum Miðgarðs, s.s. í forvarnarmálum og sérfræðiþjónustu við börn og barnafjölskyldur.