Grænir fimmtudagar hjá Garðyrkjufélagi Akureyrar

Nú þegar daginn er farið að lengja hefur Garðyrkjufélag Akureyrar starfsárið með stuttum   opnum fundum sem verða næstu fimmtudagskvöld, hið fyrsta var reyndar sl.  fimmtudagskvöld og var þá fjallað um sáningu og undirbúning fyrir sumarið. Hallur Gunnarsson formaður Garðyrkjufélags Akureyrar segir að félagið hafi legið í dvala um nokkurra ára skeið, en starfsemi þess endurvakin í fyrravetur og nú eigi að endurtaka leikinn.  

„Við ætlum að vera með græna fimmtudaga fram á vorið, þetta verða stuttir fundir og allir velkomnir.  Við verðum með stutta fyrirlestra eða fræðslu um ákveðið efni á hverjum fundi, jafnvel sýningu og ræðum um margvíslega hluti sem tengjast garðrækt," segir Hallur, en alls verða haldnir sjö fundir. Hann segir að mikill áhugi sé fyrir garðrækt, góð viðbrögð við opnun matjurtagarða Akureyringa sýni það best þannig að Hallur telur að fólk verði duglegt að mæta á fundina og fræðast um þessi málefni. Næsta fimmtudag verður einmitt fjallað um matjurtagarðana í ræktunarstöðinnni. Næstu fundir verða síðan haldnir í Gömlu gróðrarstöðinni við Krókeyri á Akureyri, þar verður fjallað um tré í görðum, því næst um klippingar trjáa og runna, þá um klifurjurtir og kartöfluræktun. Hlé verður gert í kringum páskana en síðasti fundurinn í röðinni verður um blómabeð þann 8. apríl nk.

Nýjast