Um er að ræða dagsferðir, t.d. í Mývatnssveit, að Dettifossi og í hvalaskoðunarferðir til Húsavíkur. „Allar þessar ferðir seldust mjög vel og bílarnir voru þéttskipaðir allt sumarið," segir hann. Þá fær fyrirtækið stóran hluta sinna tekna í evrum og skiptir það sköpum fyrir reksturinn um þessar mundir. Tekjur þess hafa aukist og því hefur gengið vel að greiða niður skuldir. Vissulega segir Gunnar að öll innlend aðföng hafi hækkað, eldsneyti og varahlutir svo dæmi séu tekin, en svigrúm til gjaldskrárhækkana er ekkert.
„Við erum bjartsýn á að þetta ár verið líka gott í okkar rekstri, það bendir ekkert til annars en að ferðamenn verði hér margir á svæðinu á komandi sumri, bókanir benda til þess. Þær líta vel út og því er ekki ástæða til annars en vera bjartsýnn," segir Gunnar en bendir á að samdráttur á íslenska markaðnum hafi bitnað á fyrirtækinu. Þannig dragi bæði ríki og sveitarfélög úr sínum kostnaði, ýmsar sérferðir með skólahópa heyri nánast sögunni til. "Það er búið að skera allt svoleiðis niður og það bitnar auðvitað á okkur," segir Gunnar.