12. febrúar, 2007 - 11:54
Fréttir
Samstarfssamningur sem felur í sér að sett verði upp ný vinnslulína á Amtsbókasafninu á Akureyri til stafrænnar endurgerðar á prentuðu efni og færslu þess á Netið, hefur verið undirritaður. Nú er að hefjast nýtt tímabil í stafrænni endurgerð menningararfsins með því að mynda Dag, Tímann, Þjóðviljann og Alþýðublaðið og birta á Netinu. Það voru þær Sigrún Björk Jakobsdóttir bæjarstjóri á Akureyri og Sigrún Klara Hannesdóttir landsbókavörður sem undirrituðu samninginn á Amtsbókasafninu nú skömmu fyrir hádegi. Fjárveiting fékkst frá Alþingi, 12 milljónir króna á ári í þrjú ár, til að vinna verkið. Akureyri var talinn ákjósanlegur staður til þess að setja upp nýja vinnslulínu, þar sem Amtsbókasafnið á öll þessi blöð í prentuðu formi. Stefnt er að því að þetta verkefni hefjist 1. mars nk. og verða þá ráðnir starfsmenn til Amtsbókasafnsins til að mynda blöðin. Safnið leggur jafnframt til vinnuaðstöðu og afnot af því efni sem á að mynda.
Undanfarin ár hefur Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn unnið að því að setja Morgunblaðið á stafrænt form og nú geta allir landsmenn lesið það á Netinu allt aftur til 1913. Búið er að mynda Lögberg-Heimskringlu, svo og öll íslensk tímarit og dagblöð sem eru eldri en 1920 og er síðufjöldi stafrænna gagna sem er aðgengilegur á Netinu komin talsvert á aðra milljón.